Ástralinn Robert Allenby er með fjögurra högga forystu eftir tvo hringi á Opna ástralska mótinu. Hann lék annan hringinn á pari, eða 72 höggum. Hann setti vallarmet á fyrsta hringnum sem hann lék á 63 höggum, eða 9 höggum undir pari. Landi hans, Adam Scott, er í öðru sæti, en hann lék annan hringinn á 73 höggum, eða einu höggi yfir pari. Aðstæður til keppni í gær voru ekki góðar vegna veðurs og hafði það áhrif á skorið.

„Áður en ég sló á fyrsta teig vissi ég að þetta yrði erfiður dagur. Ég ákvað því að vera þolinmóður og láta það ekki fara í taugarnar á mér þó skorið væri ekki eins gott og ég hefði óskað. Ég setti þó niður nokkur góð putt. Í þessu móti er verið að keppa um Ástralíutitilinn og því er völlurinn gerður eins erfiður og hægt er,“ sagði Allenby.

Rob Pampling frá Ástralíu, sem lék best á öðrum hring – 70 höggum, deilir þriðja sæti með Aaron Baddeley, John Senden, Nathan Green og Paul Sheehan, á samtals 4 höggum undir pari.

Peter Lonard, sem hefur titil að verja, lék á 72 höggum í gær og er samtals á tveimur höggum yfir pari, og er í 36. sæti.