Tiger Woods er með þriggja högga forystu eftir fyrri hringinn á PGA Grand Slam mótinu í Hawaii, en þar mætast fjórir sigurvegarar PGA-risamótanna. Tiger, sem vann á Masters og Opna breska, lék hringinn í gær á 67 höggum.

Phil Mickelson, sem sigraði að PGA-meistaramótinu, lék á 70 höggum. Ný-Sjálendingurinn Michael Campbell, sem sigraði á Opna bandaríska, lék á 73 höggum og Vijay Singh, sem er annar á heimslistanum og vann PGA-meistaramótið í fyrra, lék á 75 höggum.

“Ég varð að reyna að standa uppréttur. Ég hef verið hálf slappur eftir Japansferðina og kom þessi árangur mér því nokkuð á óvart,” sagði Tiger Woods. “Þegar fór að líða á hringinn var mér bara farið að líða nokkuð vel.”

Tiger og Mickelson voru jafnir eftir fyrstu þrjár holurnar, en Mickelson, sem lék á 59 höggum seinni hringinn á mótinu í fyrra, fékk síðan tvo skolla í röð. Tiger lék af öryggi og endaði hringinn á því að setja niður 8 feta pútt fyrir fugli á 18. holu. Tiger hefur fimm sinnum sigrað í þessu móti, síðast árið 2002.

Campbell er nú með í mótinu í fyrsta sinn. “Það er heiður að fá að vera með í þessu móti. Ég hef horft á þetta mót í sjónvarpinu síðustu 14 ár og það er gaman að vera hluti af þessu núna, hluti af sögu þess,” sagði Campbell.

Singh var ekki að spila vel, sérstaklega á 11. holu, sem er pari-3, lék hana á sjö höggum. Hann kom inn í mótið fyrir Retief Goosen, sem gaf ekki kost á sér.

Leiknar verða 36 holur, eða tveir hringir. Leikið er á hinum stórbrotna Poipu Bay-velli sem liggur meðfram ströndum Hawaii. Mótið sjálft hefur verið haldið á Poipu Bay-vellinum sleitulaust undanfarin 12 ár.