Hin 16 ára gamla Michelle Wie frá Bandaríkjunum segist mæta í Casio karlamótið í Japan til að sigra. Hún hefur þegar tekið þátt í fimm karlamótum á ferlinum, en hefur aldrei náð í gegnum niðurskurðinn. „Vonandi næ á að spila fjóra góða hringi og markmiðið er auðvitað að sigra,“ sagði Wie eftir æfingahring í Japan í gær.

„Flatirnar eru hraðar og nokkuð erfiðar. Ég mun reyna að leika af stöðugleika – komst undir parið og njóta þess að spila. Til að eiga möguleika í karlamótum þarf ég að vera sterkari og slá lengra. Það eru svo margir góðir kylfingar bæði í karla og kvennaflokki. Vonandi spila ég vel og stóra markmiðið er að fá tækifæri til að leika á Mastersmótinu,“ sagði Wie.

Hún hefur tekið þátt í þremur karlamótum á PGA-mótaröðinni; tvö á Opna Sony mótinu og John Deere mótinu í júlí. Hún var aðeins einu höggi frá því að komast áfram á Sony mótinu í fyrra.

Casio mótið í Japan, sem er hluti af japönsku mótaröðinni, er það fyrsta sem Wie tekur þátt í frá því hún var dæmd úr leik í Samsung LPGA-mótinu í síðasta mánuði, en þá lét hún boltann falla nær holu eftir víti á þriðja hring og fékk frávísun.

Wie verður í ráshópi með japönsku kylfingunum Shinichi Yokota og Taichi Teshima á fyrsta hring á fimmtudag.