Besti kylfingur heims, Tiger Woods, sýndi styrk sinn á þriðja hring á Dunlop Phoenix mótinu í Japan í nótt. Hann lék á 68 höggum og er nú samtals á 10 höggum undir pari með eins höggs forskot á landa sinn, Jim Furyk, sem lék á 70 höggum. Woods hefur titil að verja í þessu móti.

Tiger fékk fimm fugla og þrjá skolla á hringnum og lék á tveimur höggum undir pari. “Ég er ánægður með hringinn, var að slá vel og pútta nokkuð vel. Völlurinn var erfiður í dag því hraðinn á flötunum var meiri en áður og því var erfitt að ná í fugla. Það var því gott að leika á tveimur undir við þessar aðstæður,” sagði Tiger.

Bandaríkjamaðurinn David Duval og Japaninn Kaname Yokoo deila þriðja sætinu fyrir lokahringinn, þremur höggum á eftir Tiger.
Ný-Sjálendingurinn Michael Campbell er átta höggum á eftir Tiger, lék á 70 höggum í nótt. Colin Montgomerie átti slæman dag og lék á 77 höggum og er nú samtals 7 höggum yfir pari og neðarlega á lista, eða í 48 sæti.