Stjórn Evrópumótaraðarinnar í golfi hefur úrskurðað íþróttasálfræðinginn John Pates í þriggja mánaða bann eftir að hann átti í útistöðum við kylfusveininn Rick Brand á móti sem fram fór í Sjanghæ í Kína fyrir tveimur vikum. Brand hefur starfað með Robert-Jan Derksen frá Hollandi undanfarin misseri og var hann dæmdur til þess að greiða sekt vegna atviksins. Pates sló Brand hnefahöggi á veitingastað eftir mótið og þótti það ekki viðeigandi fyrir Evrópumótaröðina.

Á meðal þeirra sem nýta sér þjónustu Pates er Bradley Dredge frá Wales og Skotinn Stephen Gallacher en þeir eru báðir að leika á heimsbikarmótinu í Portúgal. Dredge vildi ekki ræða atvikið við fréttamenn fyrir mótið en hafði þó kímnigáfuna í lagi er hann var spurður hvaða skilaboð hann hefði fengið frá sálfræðingnum fyrir mótið. “Hann sagði mér að vera árásargjarn,” sagði Dredge.