Þrjár þjóðir deila efsta sætinu á heimsbikarmótinu í tvímenningi, sem fram fer á Algarve í Portúgal, þegar keppnin er hálfnuð. England, Wales og Svíþjóð hafa leikið tvo hringi á 128 höggum, eða 16 höggum undir pari. Argentínumenn stálu hins vegar senunni í dag þegar þeir léku á 61 höggi, eða 11 höggum undir pari, sem er nýtt mótsmet í fjórmenningi. Þeir eru aðeins einu höggi á eftir forystuþjóðunum þremur. Eldra mótsmetið var 62 högg og það áttu Vijay Singh og Dinesh Chand, sem léku fyrir Fijieyjar 2002.

Leikfyrirkomulagið í dag var fjórmenningur, en þar skiptast keppendur á um að slá upphafshöggin og slá síðan til skiptis út holuna. Á fyrsta hringnum í gær var leikinn fjórleikur þar sem spilaður er betri bolti.

“Við lékum báðir frábært golf í dag eins og við reyndar gerðum líka í gær, en í dag gekk allt upp,” sagði Argentínumaðurinn Ricardo Gonzalez. Félagi hans, Angel Cabrera, tók í sama streng og sagði að boltinn hafi látið vel af stjórn í dag. 14 ára sonur hans, sem einnig heitir Angel, var kylfusveinn hjá pabba sínum í dag.