Bandaríska stúlkan Paula Creamer er ekki á því að gefa Anniku Sörenstam neitt í bráttunni á lokamóti LPGA-mótaraðarinnar í Flórída. Þær léku saman á fyrsta hring í gær og kom upp ágreiningur milli þeirra á 18. holu. Creamer vildi meina að Sörenstam hafði átt að fara aftur á teig eftir að hún sló boltann í vatnstorfæru. Eftir nokkuð orðaskak milli þeirra kom dómari á vettvang og úrskurðaði að Sörenstam mætti láta boltann falla rétt við torfæruna og var Creamer ekki sátt við það.


Hee-Won Han frá Suður-Kóreu lék best í gær, á 67 höggum eða 5 höggum undir pari. Creamer lék á 68 höggum og Sörenstam lék á 69 höggum og deilir þriðja sæti með Soo-Yun Kang frá Suður-Kóreu, Liselotte Neumann frá Svíþjóð og Michele Redman frá Bandaríkjunum.

Þetta er lokamótið á LPGA-mótaröðinni og þar keppa aðeins 30 efstu konurnar á LPGA-peningalistanum.