Lokamótið á bandarísku LPGA-mótaröðinni, ADT meistaramótið, hefst í Flórída í kvöld. Þar keppa 30 efstu kylfingarnir á LPGA-peningalistanum og er Annika Sörenstam þar fremst í flokki og á hún titil að verja. Hún hefur þegar unnið 88 mót á ferlinum og segist ekki vera orðin þreytt á sigrum. Hún ætlar sér að vera áfram í fremstu röð þó svo að það verði erfiðara með hverju árinu, en hún er 35 ára.

Þrátt fyrir mikla sigurgöngu í gegnum árin á hún sér enn þann draum að vinna öll risamótin á sama árinu. Hún hefur þegar unnið 9 risamót og á væntanlega eftir að bæta við þá tölu ef á líkum lætur. „Ég vona að ég verði áfram í fremstu röð næstu þrjú til fimm árin. Ég er ekki að setjast í helgan stein. Ég geri mér grein fyrir því að ég þarf að æfa mun meira en áður til að halda mér á toppnum. Ég hef enn mikla ánægju af golfinu,“ sagði hún.

Sörenstam hefur þegar tryggt sér efsta sæti peningalistans fimmta árið í röð. Hún er kylfingur ársins á LPGA-mótaröðinni og þá er hún með lægsta meðalskor á hring. Einu vonbrigði hennar í ár voru þau að vinna ekki öll risamótin, en hún sigraði á tveimur þeirra; Kraft Nabisco og LPGA-meistaramótinu. Hún mun reyna við öll risamótin á næsta ári og hún trúir því sjálf að hún geti unnið þau.