Ragnhildur Sigurðardóttir, Íslandsmeistari úr GR, lék fyrsta hringinn á úrtökumótinu fyrir evrópsku mótaröðina á Costa del Sol á Spáni í morgun á 80 höggum, eða 7 höggum yfir pari. Hún var ekki ánægð með skorið og sagðist þurfa að fara beint út á æfingasvæði til að æfa. Hún var í öðrum ráshópi í morgun og því er óljóst hver staða hennar er því þorri keppenda á eftir að klára hringinn. Sú sem lék með Ragnhildi í morgun var á 77 höggum.

„Mér gekk ekki vel. Fékk ekki einn einasta fugl á hringnum, var með fimm skolla og einn tvöfaldan skolla. Ég var að taka boltann of mikið með mér, það er að segja draga hann til vinstri. Ég fékk nokkur tækifæri á fuglum, en þeir voru ekki að detta. Flatirnar eru frekar litlar og það þarf að vanda mjög höggin inn á flöt. Svo var ég bara nokkuð stressuð, vildi gera svo mikið meira,“ sagði Ragnhildur og var greinilega ósátt við frammistöðuna.

„Ég veit að þetta lítur ekkert of vel út hjá mér eftir fyrsta hring, en ég er ekki að gefast upp. Nú þarf ég að taka vel á því á morgun og spila mitt golf. Ég veit alveg að ég get gert mun betur og það ætla ég mér að gera. Það var smá spenna í maganum í dag, en vonandi verður hún ekki til staðar á morgun," sagði Ragnhildur.

Í dag er leikið á Norðurvellinum á La Cala golfsvæðinu, sem er par-73, 5513 metra langur. 118 kylfingar leika tvo hringi í forkeppni úrtökumótsins og komst 44 þeirra áfram á lokastigið sem hefst á föstudaginn. Þar bætist Ólöf María Jónsdóttir í hópinn.