Saga Leynis
Fyrir réttum 34 árum, þann 15. mars 1965, komu 22 valinkunnir Skagamenn saman í fundarsal Íþróttahússins við Laugarbraut og stofnuðu Golfklúbb Akraness.

GkA var þannig 7. golfklúbbur landsins. Helstu hvatamenn voru þeir Guðmundur Sveinbjörnsson og Óðinn S Geirdal. Á framhaldsstofnfund viku síðar voru einnig mættir forseti Golfsambands Íslands (elsta sérsamband ÍSÍ, stofnað 1942) Sveinn Snorrason og formaður Golfklúbbs Reykjavíkur Þorvarður Árnason til að gefa góð ráð með framhaldið. Bæjaryfirvöld höfðu úthlutað klúbbnum gamalgrónu 3 hektara túni við austurenda skógræktar bæjarins og voru þar strax gerðar tvær holur og slegin braut milli þeirra og kylfingar voru komnir á kreik. Árið eftir fékkst álíka stórt tún til viðbótar vestan þess fyrsta og voru settar út 6 brautir. Þar var kominn fyrsti “alvöru” golfvöllur Skagamanna sem snemma fékk nafnið Garðavöllur, enda hafði landið heyrt undir Garðaprestakall. Klúbburinn var formlega tekinn inn í Golfsamband Íslands 1967, en til þess að verða fullgilt aðildarfélag að GSÍ þurfti klúbburinn að hafa til afnota “alvöru” golfvöll. Nú eru aðildarklúbbar GSÍ 53 talsins og skráðir iðkendur rúmlega 9.000 og eru kylfingar því annar fjölmennasti hópurinn innan ÍSÍ, næst á eftir knattspyrnuiðkendum.

Fyrstu árin voru félagar GkA á bilinu 20 - 40. Árið 1967 var Þorsteinn Þorvaldsson kjörinn formaður klúbbsins og var hann endurkjörinn 13 næstu ár.
Ekki er á neinn hallað þótt fullyrt sé að með krafti sínum og dugnaði hafi hann öðrum fremur haldið klúbbnum gangandi og skapað honum smám saman þann sess sem hann nú hefur. Nú er golfklúbburinn annað fjölmennasta íþróttafélag innan vébanda Íþróttabandalags Akraness með rúmlega 200 skráða iðkendur, þar af um 20% konur og um þriðjungur unglingar 16 ára og yngri.

Nafni golfklúbbsins var formlega breytt 1970 og varð örnefnið Leynir fyrir valinu enda liggur Garðavöllur “í Leyninum” og Leynislækurinn við Leynisgrund á upptök sín á svæðinu. Fyrsta golfmót klúbbsins var haldið 1967 og var nefnt Vatnsmótið og hefður það verið haldið allar götur síðan eða í 22 ár samfleitt. Haraldarmótið fór fyrst fram 1969 og leikið var um farandgrip sem gefinn var til minningar um Harald Böðvarsson. Meistaramót klúbbsins var fyrst haldið 1970 og sigurvegari í öllum þessum mótum var Hannes Þorsteinsson, síðar fyrsti landsliðsmaður GL, formaður klúbbsins og hönnuður Garðavallar.

Garðavöllur hefur smám saman verið að taka á sig núverandi mynd. Árið 1969 náðist stór áfangi er samþykki fékkst fyrir afnotum á álíka stóru landi og fyrir var vestan 6 holu vallarins. Skipulagsuppdráttur Hannesar Þorsteinssonar, þá 17 ára, af 9 holu velli var samþykktur og hafist var handa við leik á þessum velli þetta sumar. Sama ár keypti klúbburinn fyrstu fólksbílastöðina á Akranesi, síðar seglasaumaverkstæði, og flutti á vallarsvæðið þar sem nú er endi 1.brautar og breytti því í golfskála. Árið 1978 var íbúðarhúsið í Grímsholti keypt með dyggri aðstoð Akranesbæjar og það tekið í notkun sem félagsheimili sama ár. Veturinn 1981 var húsið endurnýjað innanstokks og komið í núverandi horf.

Leynismönnum hefur nokkrum sinnum verið falið að halda meistaramót fyrir GSÍ. Fyrst var Íslandsmeistaramót unglinga sem klúbburinn sá um 1978. Síðan hafa Leynismenn séð um framkvæmd nokkurra unglingameistaramóta, sveitakeppna og deildarkeppna fyrir GSÍ og munu í ár halda Unglingameistaramót Íslands í holukeppni og Sveitakeppni GSÍ fyrir 15 ára og yngri. Klúbburinn hefur sótt um að halda Landsmót í golfi 2003.

Alla tíð hefur unglingastarf verið öflugt hjá Leynismönnum og hefur það fætt af sér óvenju stóran hóp afrekskylfinga á landsmælikvarða, miðað við stærð félagsins. Leynir hefur átt fjölmarga landsliðsmenn, bæði í unglinga- og karlalandsliðum. Nokkrum sinnum hafa unglingasveitir Leynis orðið Íslandsmeistarar í sínum aldursflokkum og karlasveit klúbbsins hefur einnig náð frábærum árangri. Æðstu metorð kylfinga á Íslandi eru þó Íslandsmeistaratitlar einstaklinga. Þar hefur klúbburinn vakið verulega athygli fyrir árangur enda varð Birgir Leifur Hafþórsson Íslandsmeistari karla 1996 og Þórður Emil Ólafsson Íslandsmeistari karla 1997. Það er einsdæmi á seinni tímum að tveir kylfingar úr sama klúbbi hafi borið þennan titil tvö ár í röð. Þórður varð annar í sama móti 1998. Báðir hafa þeir verið kjörnir Íþróttamenn Akraness. Þá varð Birgir Leifur Íslandsmeistari í holukeppni karla 1996. Áður hafði Birgir orðið Íslandsmeistari unglinga 1992 og sama árangri náði Hjalti Nielsen 1989. Þá varð Gunnar Júlíusson Íslandmeistari öldunga 1985.

Upphafið að stæsta áfanga í sögu Leynis hófst 1996 þegar leikur var hafinn á fjórum nýjum brautum og völlurinn varð 11 holu golfvöllur. Brautirnar eru hluti 18 holu skipulags sem samningar höfðu verið gerðir um við Akranesbæ 1994. Samningurinn var endurnýjaður 1997 og nú hyllir undir að draumurinn um að leikur geti hafist á 18 holu golfvelli hér á Akranesi rætist á haustdögum 1999. Stefnt er að formlegri vígslu vallarins sumarið 2000 á 35 ára afmælisári Golfklúbbsins Leynis. Leynismenn hafa alfarið séð um gerð vallarins og hefur framkvæmdanefnd klúbbsins innt af hendi mikila sjálfboðaliðsvinnu til að ná sem mestri hagkvæmni. Verkið hefur verið undir eftirliti tæknideildar bæjarins enda er Garðavöllur eitt af íþróttamannvirkjum Akranesbæjar þótt golfklúbbnum sé falinn rekstur þess og afnotaréttur.

tekið af www.golf.is/gl ;)

kveðja.. Malló (GL)