Við höfum opnað aðstöðu í Þorlákshöfn (u.þ.b. hálftímaakstur frá Reykjavík) fyrir þá kylfinga sem vilja koma sér í form fyrir átökin í sumar.

Þessi aðstaða er tilvalin hvort sem um er að ræða byrjendur, sem nenna ekki labbinu og leitinni, sem og þá sem lengra eru komnir og vilja bæta leik sinn, því golfhermirinn mælir alveg nákvæmlega upp á hár hversu langt þú slærð og þar með færðu loksins að vita hversu langt þú slærð með hverri kylfu.

Kylfingar hafa margir hverjir kvartað sárlega undan því að geta ekki spilað golf að vetri til. Ástæður fyrir því geta verið margar, til dæmis hafa sumir einfaldlega ekki tíma, aðrir nenna ekki út í kuldann eða hafa jafnvel ekki heilsuna í það. Þetta fólk hefur hingað til litið svo á að best væri að setja golfsettið út í bílskúr eða geymslu og bíða eftir næsta sumri.

Benna Golf býður þessum kylfingum að spila golf við bestu mögulegar aðstæður sem skapast geta innandyra. Við erum að tala um golfhermir sem er, af þeim sem til þekkja, talinn vera einn sá besti sem völ er á í heiminu í dag. Hann notast við raunverulegar ljósmyndir af brautum frægustu golfvalla heims og gefur þannig kylfingum gríðarlega innsýn inn í leik þeirra bestu. Því er um að gera að taka fram kylfurnar á nýjan leik, æfa sig í golfherminum hjá Benna Golf.

Benna Golf býður upp á golfhermir af gerðinni Double Eagle 2000 sem er framleiddur af Par T Golf. Kylfingurinn stillir sér upp á sérstaka mottu, sem ýmist er eftirlíking af venjulegu grasi, háu grasi eða sandglompu, og slær í stórt tjald sem er fyrir framan hann. Fyrir ofan kylfinginn er svo kassi með þremur innrauðum myndavélum sem nema kúluna og taka niður upplýsingar. Við kassann er svo tengd tölva sem reiknar út feril, kraft og spuna kúlunnar eftir þeim upplýsingum sem myndavélarnar gáfu. Skjávarpi, sem varpar ljósmyndunum á tjaldið, birtir síðan tölvuteiknaða kúlu sem fer í þá átt sem hún ætti að fara samkvæmt útreikningum tölvunnar. Hugtök eins og “Slice” og “hook” sem margir kylfingar ættu að þekkja eru tvö af mörgum atriðum sem koma fram í ferli kúlunnar og er því tilvalið að bæta sveifluna í golfhermi hjá Benna Golf.

Nú hafa þegar nokkrir hópar kylfinga fengið tækifæri á því að prófa golfhermirinn og voru þeir allir á sama máli. Ef einhvað kemst nálægt því að spila golf úti í náttúrunni, þá er það þessi golfhermir.

Benna Golf – Golfhermir tekur niður pantanir símleiðis í síma 8941088 og eru áætlanir uppi um að kylfingar geti pantað sér tíma á heimasíðu okkar, www.bennagolf.tk.

Benna Golf - Golfhermir / Hraunbakka 1 / 815 Þorlákshöfn / +354 894 1088
www.bennagolf.tk / golfhermir@haflidi.is