Óhætt er að segja að veðurguðirnir hafi leikið við kylfinga um páskana og ekki skemmdi fyrir að víða voru vellir opnir inná sumarflatir.
Korpan opnaði inná sumarflatir fyrir páska og þar hefur verið stöðug aðsókn og ekki hlaupið að því að fá rástíma yfir hádaginn. Þá hefur Golfklúbbur Reykjavíkur boðað opnun í Grafarholtinu laugardaginn 26. apríl n.k. sem er 2 - 4 vikum á undan hefðbundnum opnunartíma. Eingöngu er opið fyrir félagsmenn GR á velli klúbbsins til að byrja með.
Hjá Golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ hefur verið opið inná sumarflatir alla páskana og aðsókn verið mjög góð.
Golfklúbbur Suðurnesja hélt opið mót á laugardaginn s.l. og voru þáttakendur 100 sem verður að teljast nokkuð gott á þessum tíma. Opið var inná sumarflatir en völlurinn opnar hinsvegar ekki formlega fyrr en laugardaginn 26. apríl n.k. fyrir aðra en félagsmenn.
Hjá Golfklúbbi Hellu voru þær fréttir að hafa að góð aðsókn hefur verið að vellinum alla páskana. Sömu sögu er að segja frá Golfklúbbnum á Flúðum enda hefur veðurblíða verið með eindæmum á Suðurlandi.
Hjá Golfklúbbi Norðfjarðar á Neskaupstað var haldið mót þann 18 apríl s.l. og voru þáttakendur 50. Sumarflatir voru slegnar og spilað inná þær og höfðu menn að orði að þetta væri líklega í fyrsta sinn sem flatir hafa verið slegnar þetta snemma á Austurlandi.
Í Vestmannaeyjum var fyrirhugað opið mót laugardaginn 19. apríl en sökum ófærðar í lofti var því frestað til mánudagsins 21. apríl eða í dag. Völlurinn í Eyjum er kominn í fínt ástand og lofar því góðu fyrir komandi Íslandsmót í golfi sem haldið verður þar 24. - 27. júlí.
Þá bárust þær fréttir að í Borgarnesi hefði aðsókn á völlinn verið mjög góð og opið inná sumarflatir.
Sjálfsagt hafa flestir vellir verið opnir og fleiri en þeir sem hér hafa verið upptaldir með opið inná sumarflatir. Með þessu áframhaldi ætti golfvertíðin að vera kominn í fullan gang um næstu mánaðarmót!
<br><br>Tékkið á síðunni minni http://kasmir.hugi.is/lemiux