Eftir hörmungarnar í New York og Washington á þriðjudaginn hafa skapast umræður um hvort að fresta eigi Ryder Cup sem á að fara fram 28-30 september. Bandaríkjamennirnir Mark Calcavecchia og Jim Furyk hafa sagt að fresta eigi keppninni vegna þess hversu fljótt hún er eftir atburðina og að menn verði ekki í ástandi til að keppa undir þessu kringumstæðum, einnig hafa Bandaríkjamennirnir áhyggjur af öryggi sínu í fluginu til Englands. Colin Montgomerie vill hinsvegar að Ryder Cup fari fram eins og áætlað var og segir að ef Ryder Cup verði frestað þá séu menn að leyfa hryðjuverkamönnunum að sigra. Mark James fyrrum liðsstjóri og liðsmaður Evrópuliðsins og núverandi formaður nefndar evrópumótaraðarinnar segir að ef Ryder Cup verði frestað þá verði nánast ómögulegt að koma keppninni inn í áætlanir beggja mótaraða og því þurfi líklega að aflýsa keppninni og taka upp þráðinn aftur árið 2003.

Sjálfur er ég sammála Monty og vil að Ryder Cup fari fram. Þó að golf skipti mjög litlu máli þegar slíkar hörmungar ganga yfir hlýtur að koma sá tími að menn haldi áfram með sitt líf, við getum ekki lifað í stanslausum ótta við hryðjuverkamenn og látið þá stjórna lífi okkar.

Jesper Parnevik meðlimur evrópska liðsins var staddur á Plaza hótelinu í New York, í um kílómetra fjarlægð frá World Trade Center, þegar fyrri flugvélin skall á byggingunni. Hann átti fótum sínum fjör að launa og leitaði skjóls í Central Park undir lágum byggingum ásamt fleira fólki. Hann sagðist hafa óttast um líf sitt og hafa hugsað til fjölskyldu sinnar í Svíþjóð sem ætlaði upphaflega að koma með honum til New York þar sem hann var að hitta golffatahönnuðinn Johan Lindeberg.

World Golf Championship, mót sem er hluti af af bandarísku mótaröðinni, var aflýst í dag. Fjöldi keppenda gat ekki komist á mótsstað auk þess að dagurinn í dag er yfirlýstur sorgardagur í Bandaríkjunum og fannst kylfingum ekki rétt að spila golf á slíkum degi. Heildarverðlaunafé í mótinu hljóðaði upp á $5m og ákváðu mótshaldarar að gefa peninginn í sjóð sem stofnaður var fyrir þá sem eiga um sárt að binda eftir hryðjuverkin.
jogi - smarter than the average bear