Sagt er að líkurnar á því að fara holu í höggi séu 12.750 á móti einum, samkvæmt þeim líkum tæki það mann 78 og hálft ár að fara níu holur í höggi ef maður myndi spila einn 18 holu hring á dag. Það tók hinsvegar 15 ára pilt að nafni Bradley Farmer aðeins 73 daga að fara níu sinnum holu í höggi, eða hvað?

Bradley Farmer var fimmtán ára á þeim tíma sem hann vann þessi afrek, hann hafði spilað golf frá því hann var 6 ára og var með einn í forgjöf. Margir efuðust samt um að hann hafi virkilega afrekað þetta og þessar efasemdir áttu við rök að styðjast. Af þessum níu skiptum var faðir Bradleys, Roger, sá eini sem var skráður sem vitni í sjö tilvikum. Hin tvö vitnin sem voru skráð voru annars vegar Kevin Napier sem að sagði að Bradley hefði slegið í næst holu skilti fyrir utan grínið og þaðan hefði kúlan skoppað ofan í holuna. Hitt vitnið sem var skráð var Dustin Denning sem var skráður sem vitni þegar Bradley fór holu í höggi á 270 metra langri par 4 holu, Dunning sagði hinsvegar að hann hefði ekki verið að spila með Bradley, hann hafði verið á næsta teig og ekki séð neitt.

Bradley Farmer sagðist í viðtali ætla að stefna á að bæta metið í flestum holum í höggi á ári, metið er 11. Eftir þessa níu fyrstu ása var hann að spila með föður sínum, hann fór holu í höggi á þriðju holu og síðan aftur á fimmtándu! Pabbi hans gekk af 15. gríninu yfir á 16. teig þar sem Sherman Tibbs var að spila og spurði hann hvort hann gæti komið á 15. grínið og verið vitni, því að sonur hans hefði farið holu í höggi. Tibbs sagði að þeir feðgar hefðu ekki sýnt nein merki af fögnuði eða ánægju, hann sagði að háttalag þeirra hefði frekar bent til þess að þeir væru að spá í hvort hann tryði þeim eður ei. Tibbs sagði við Bradley: „til hamingju með fyrsta ásinn, þetta hlýtur að vera frábær tilfinning“ þá svaraði Bradley: „reyndar er þetta minn ellefti“. Tibbs komst síðar að því að Bradley hafði farið holu í höggi áður í sama hring en þeir feðgar minntust ekkert á það við hann á 15. holunni. Bradley sagði síðar að hann hefði slegið í stöngina á þriðju par 3 holunni á sama hring og stoppað fet frá, hann hefði verið fyrstur í sögunni til að ná þremur ásum í sama hring ef það högg hefði dottið.

Það trúði honum nánast enginn, staðarblað birti m.a. frétt um hann: “Brad Farmer fór holu í höggi á hinni 180 metra löngu þriðju holu Pine Creek vallarins, hann notaði 5-járn til verksins. Vitni voru pabbi Brads, Ron Milsap og Ray Charles.“
Milsap og Charles eru sem kunnugt er báðir blindir!
Hvað haldið þið, er hann að ljúga öllu saman til að komast í golfmetabækur eða er hann að segja satt?
jogi - smarter than the average bear