Lord Nelson Jæja nú er komið að fjórðu grein minni um goðsagnir golfíþróttarinar og nú er komið að því að fjalla um mann að nafni Byron Nelson eða Lord Nelson eins og hann er oft kallaður, þegar hann var uppá sitt besta var hann oft kallaður Mr. Golf af fjölmiðlum. Það má segja að hann sé lifandi goðsögn.

Byron Nelson er fæddur 4, febrúar 1912 rétt fyrir utan bæinn Waxahachie í Texas. Faðir hans var bóndi og sérhæfði sig í baðmullar ræktun. Ungur að aldri fór hann að vinna sem kaddý, ásamt Ben Hogan, og fór að spila fljótlega eftir það. Nelson sigraði einmitt Hogan í golfmóti kaddýa, á Glen Garden Country Club, þegar þeir voru 15 ára gamlir. Þeir voru víst ágætis vinir fyrir mótið en eftir að Nelson sigraði segja sögur að þeir hafi lítið talast við eftir það.

Byron var mikill sveitarstrákur, þegar hann var yngri og hans heitasti draumur var að eignast sinn eiginn búgarð í sínu heimafylki. Hann vissi að það kostaði fúlgu fjár að láta þetta verða að veruleika en hann fann leið. Sú leið var að gerast atvinnumaður í golfi og keppa á stóru peningamótunum. Hann gerðist atvinnumaður 1932, aðeins tvítugur að aldri.

Hann vann sitt fyrsta stóra mót 1937, U.S Master, og svo vann hann það aftur 1942 eftir 18 holu umspil við Ben Hogan. Hann vann U.S Open 1939 og PGA Championship 1940 og 1945. Hann vann samtals 54 mót sem atvinnumaður og setti allnokkur met sem að standa ennþá og munu væntanlega gera næstunni.

Á þeim tíma sem seinni heimstyrjöldin var að ljúka var Nelson uppá sitt besta og endaði í topp 10 sætunum í 65 mótum í röð, sem er met. Og á þessu tímabili vann hann 34 mót og endaði í 16 sinnum í öðrun sæti. Hann vann 11 mót í röð á einu tímabili, sem einnig er met, árið 1945 og samtals vann hann 18 mót á því ári og það er met stendur enn óhaggað.

Hann spilaði einnig 19 hringi(í mótum) í röð undir 70 höggum og með meðalskor uppá 68,33 högg. Þetta er einhver mesta afrek sem sést hefur á PGA mótaröðini á einu tímabili og það verður seint, ef aldrei, slegið.

Hann var svo vígður inní frægðarhöll golfsins, árið 1974, fyrir framlag sitt til golfíþróttarinnar. Og það er enginn vafi um það að hann átti það svo sannarlega skilið.

Byron Nelson hætti atvinnumennsku í golfi 1946 og keypti sér búgarðin sem hann hafði dreymt svo lengi um. En hann hvarf þó ekki alveg frá golfiðkun því hann fór að lýsa golfmótum fyrir ABC sjóvarpsstöðina í Bandaríkjunum og svo hjálpaði hann einnig nokkrum einstaklingum með leik þeirra, þar á meðal Tom Watson.

Byron Nelson er enn á lífi í dag og er hann við hestaheilsu, 93 ár a,og mér skilst að hann eigi ennþá búgarðinn sinn í Texas. Hann hefur ferðast víða um Ameríku síðustu árin og verið að kynna kylfur og aðrar vörur tengdar golfi fyrir framleiðendur.

Ár hvert er haldið golfmót sem nefnt er eftir honum, EDS Byron Nelson Classic, og er það mjög vel sótt af öllum stærstu nöfnum golfsins í dag enda er verðlaunaféð í þessu móti með því hæsta sem gerist í atvinnumannamótum nú til dags, fyrir utan risamótin fjögur.

Jæja þá er fjórðu grein lokið og er hún í styttra laginu núna vegna þess erfitt var að finna nægilegar góðar heimildir um hann. Næst ætla ég að skrifa um Sam Snead og er hann vafalaust einn af betri kylfingum sögunar.
!