Spænski kylfingurinn Seve Ballesteros á yfir höfði sér refsingu fyrir að hafa misst stjórn á skapi sínum á opna Via Digital mótinu í Valencia.Hinn 44 ára gamli Ballesteros má muna sinn fífil fegurri sem kylfingur, en hann hefur ekki sigrað á golfmói í sex ár.
Ballesteros er nú á meðal þáttakenda á fyrrnefndu móti, og hann var áminntur í gær fyrir hegðun sem þykir ekki við hæfi á golfmótum. Ballesteros var á sjöttu holu og þurfti að slá annað högg sitt úr háu grasi, en upphafshöggið hitti ekki brautina. Í öðru högginu tókst honum ekki betur upp en svo að kúlan fór rétt inn á brautina, og það var meira en Ballesteros þoldi á þessu augnabliki. Ballesteros barði kylfu sinni hvað eftir annað í jörðina, og náðist atvikið á sjónvarpsmyndavél.

Mótstjórinn Miguel Vidaor sagði að Ballesteros yrði refsað fyrir hegðun sína;“Atvikið átti sér stað í viðurvist áhorfenda og myndavéla og þess vegna verður Ballesteros refsað” sagði Vidaor. Hann bætti við að málið yrði til lykta leitt í einrúmi, á milli kylfingsins og Evrópumótaraðarinnar.
Ballesteros hefur aldrei áður verið refsað á sínum glæsilega ferli, en hann bar fimm sinnum sigur úr býtum á risamótum og var fyrirliði Ryder-liðs Evrópu. Ballesteros hefur beðist afsökunar á framferði sínu, þar sem hann sagði að þetta hefði verið slæm stund fyrir sig og skaðleg fyrir sinn feril.
Gerðu hlutina almennilega eða vertu heima.