Það má eiginlega segja að yfir veturinn geti maður nánast bara æft tæknileg atriði golfsins. Lítið er hægt að æfa “shotmaking” og bæta tilfinninguna í hinum ýmsu höggum. Aftur á móti þá hefur það í för með sé að æfa tæknina yfir veturinn að maður er mun betur undirbúinn í byrjun tímabilsins og er fljótari að “fá fílinginn” aftur og þar af leiðandi nýtist sumarið mun betur til að bæta tilfinninguna í hinum ýmsu höggum.

En er þá alveg ómögulegt að sinna þeim þáttum golfsins þar sem tilfinningin hefur mest að segja?
Nei ekki alveg. Hugarþjálfun kemur þar sterklega inn í, því jú, það er hægt að æfa ýmislegt í huganum. Margir hugsa með sér að þetta sé algjör firra og tímasóun. En ég er ekki sammála því. Þekkt er saga (sem ég las í golfkennslubók þeirra Úlfars Jónssonar og Kristins G. Bjarnasonar) um körfuboltalið sem átti að æfa vítaskot. Þriðjungurinn æfði samviskulega í ákveðinn tíma, annar þriðjungurinn æfði ekki neitt á sama tíma, og síðasti þriðjungurinn æfði bara vítaskotin í huganum á þessum tíma. Svo var mælt hversu vel þeim gekk að hitta úr vítaskotum og þá höfðu 1. og 3. hópurinn bætt sig, en 2. hópurinn að sjálfsögðu versnaði.

Sjálfur gerði ég mikið af því veturinn 2001-2002 að huga að huglæga þætti golfsins og átti ég mun auðveldara að halda einbeitingu það sumarið. Það sem ég gerði var að taka mér tíma í að leika ýmsa velli í huganum og einnig sjá fyrir mér ýmiss högg sem hafa verið að valda mér vandræðum í gegnum tíðina. Einnig las ég mér mikið til um þetta á netinu og annarsstaðar og fór að æfa margskonar tækni og hugsunarferli sem miða að því að ná sem bestri einbeitingu á réttum tíma. Síðasta vetur datt ég í letina og sinnti huglæga þættinum ekkert og fann ég mikinn mun á frá því tímabilið áður. Átti erfiðara með að halda einbeitingu, og voru þeir nokkrir hringirnir sem fóru ekki eins vel og þeir hefðu getað, og er án efa ein stærsta skýring þess sú að ég átti erfiðara með að stjórna hugsunum mínum.

Ef maður vill bæta andlegu hlið golfsins þá er tilvalið að nýta veturinn í að læra nýja tækni og einnig hjálpar þetta til að auðga ímyndunaraflið, sem er ekki verra að hafa smá af og er gott dæmi um það Seve Ballesteros. Ég mæli með því að menn hugi að þessu í vetur og reyni að sinna þessu skipulega. Frábært er að setjast niður í ró og næði og spila einn hring í huganum eða sjá fyrir sér að maður slái þau högg fullkomlega sem hafa valdið manni vandræðum í gegnum tíðina. Einnig er mjög mikilvægt að koma ákveðnum þáttum inn í pre-shot rútínuna (PR). Ef maður er að æfa sig mikið í tæknibreytingum, þá er tilvalið að slá nokkra bolta í restina þannig að maður fari í gegnum PR og æfi sig í því að sjá fyrir sér fullkomlega heppnað högg. Ekki einungis að sjá boltan fljúga fullkomlega, heldur einnig að rifja upp fílinginn í sveiflunni þegar maður var að slá vel. Það er alveg gífurlega mikilvægt að byrja á því sem fyrst að samræma svona huglægum hlutum inn í PR, því það þýðir lítið að ætla að bæta þessu við PR í fyrsta móti.

Án efa þá eru margir hérna sem sinna þessum þætti þokkalega, en ef maður er kominn með fína tækni í sveiflunni og með þokkalega lága forgjöf þá er þetta einn mikilvægasti þátturinn sem skilur að hvort maður verður góður meistaraflokkskylfingur eða ekki.
Því miður get ég ekki bent á neinar sérstakar síður á netinu sem hafa gott efni um þetta, einfaldlega vegna þess að þær síður sem ég notaði eru allar orðnar að einhverjum sölusíðum. Einnig er það prógram sem ég studdist mest við horfið af netinu.
Ég mæli samt með því að menn kíkji í golfbókina hjá Úlfari og Kristinni og lesi kaflann um hugarþjálfun, en einnig að skoða meira efni til þess að finna þá hluti sem eiga við mann. Í bók Tiger Woods “Svona spila ég golf” er einnig áhugaverður kafli um sálræna þátt golfsins, þar sem hann fjallar um sína reynslu og aðferðir sem hann beitir. Hægt er að finna fullt af efni og ráðum á netinu og þarf bara að spyrja herra Google um það.

Ástæðan fyrir því að ég skrifaði þessa grein er sú að ég vildi vekja althygli á þessum þætti golfsins. Lítið hefur verið skrifað um þetta hérna á Huga og held ég að það væri gaman að heyra frá ykkur sem eruð að sinna þessu eitthvað… hvað eru þið að gera?

Þakka fyrir mig.
Kv.
hardfisku