Nú þegar sumartíminn er senn á enda er mikilvægt að kylfingar leggi ekki settunum og taki sér “frí” fram yfir áramót. Besti tími til breytinga og til að bæta það sem betur má fara er einmitt á haustmánuðum og fyrstu mánuðum vetrar. Líkaminn er í góðu formi og kylfingar eru í sinni bestu æfingu og þá er einmitt tíminn til að bæta um betur og setja sér strax markmið fyrir næsta ár og hafa samband við kennara.

Þessi tími er best nýttur til að ráðast í sveiflubreytingar. Stutta spilið á að vera á hakanum nema þið hyggið á utanlandsferðir. Þegar góðum tökum hefur verið náð á breytingunum er í lagi að taka sér frí, en þegar þið byrjið svo aftur undirbúning verður mun auðvelara að koma sér í það form sem óskandi er.

Því miður hafa klúbbarnir verið ragir við að opna æfingaaðstöðu fyrr en eftir áramótin en Sporthúsið býður upp á aðstöðu sem opin er allt árið og því er mikilvægt að við nýtum okkur það til að rekstrargrundvöllur sé fyrir húsinu og við höldum einu góðu aðstöðunni sem við höfum í dag.