The Dunhill Links Championship - The Dunhill Links Championship

Eitt áhugaverðasta mót á European Tour hefst á morgun (fimmtudag) í Skotlandi. Þar koma saman sterkustu kylfingar heims og þekktar stórstjörnur. Þessi blanda af þátttakendum skilar miklu áhorfi og gerir mótið skemmtilegt á að horfa. Það sem gerir svo mótið enn skemmtilegra er að það verður haldið á þremur frægustu “links” völlum heimsins: St. Andrews, Carnoustie og Kingsbarns.

Mótið heitir “The Dunhill Links Championship” og er haldið 25. til 28. september og verða leiknar 72 holur í höggleik. Alls taka þátt 168 atvinnumenn og 168 áhugamenn. Tveir eru í liði, einn atvinnumaður og einn áhugamaður (pro-am). Allir spila einn hring á hverjum velli og síðan verður skorið niður, 60 bestu atvinnumennirnir komast áfram og 20 bestu liðin. Síðasti hringurinn fer að sjálfsögðu fram á hinum virta St. Andrews Old Course.

The Dunhill Links Championship er því tvö mót í einu, eitt mót aðeins fyrir atvinnumenn þar sem miklar fjárhæðir eru í boði (alls $5.000.000 og $800.000 fyrir sigurvegarann) og annað mót sem er liðakeppni þar sem betra skor telur á hverri holu.

Mót þetta er nú haldið í þriðja sinn með þessu fyrirkomulagi. Áður hét mótið “Alfred Dunhill Cup” og var það ávallt leikið á St. Andrews (16 ár í röð). Margir muna eftir Alfred Dunhill Cup því það var frábær skemmtun að fylgjast með því, liðakeppni af bestu gerð! Nýja mótið, The Dunhill Links Championship nær gríðarlegu áhorfi og er að styrkjast ár hvert. Paul Lawrie sigraði árið 2001 og Padraig Harrington í fyrra (sjá mynd af honum að ofan með bikarinn og klúbbhús St. Andrews Old Course í baksýn).

Hérna sést hvaða lið unnu Alfred Dunhill Cup á sínum tíma:

Ástralía (1985 og 1986)
Bandaríkin (1989, 1993 og 1996)
England (1987 og 1992)
Írland (1988 og 1990)
Kanada (1994)
Skotland (1995)
Spánn (1999 og 2000)
Suður Afríka (1997 og 1998)
Svíþjóð (1991)

Alfred Dunhill Cup var 3 manna liðakeppni. Tvö lið kepptu gegn hvor öðru. Leiknir voru þrír leikir og vann sá er lék á betra skori. Það lið sem vann fleiri leiki sigraði. Margar góðar minningar eru frá Alfred Dunhill Cup og frægar sögur. Greg Norman var ósigraður í 11 leikjum í röð þegar hann mætti Curtis Strange árið 1987. Báðir léku stórkostlega og vann Curtis Strange með nýju vallarmeti, 62 höggum.

Að þessu sinni er nýja mótið mjög sterkt. Margir af þekktustu kylfingum heims taka þátt og sem dæmi má nefna: Ernie Els, Vijay Singh, Padraig Harrington, Nick Price, Darren Clarke, Thomas Björn, Colin Montgomerie, Adam Scott, Fredrik Jacobson, Justin Rose, Lee Westwood, Nick Faldo, Jose Maria Olazabal og Shaun Micheel sem vann US Open með eftirminnanlegum hætti fyrr í ár og er að keppa í Evrópu í fyrsta sinn.

Margir heimsfrægir áhugamenn taka þátt og helst ber að nefna: Samuel L. Jackson, Michael Douglas, Hugh Grant, Boris Becker, Sir Bobby Charlton, Johan Cruyff, Kenny Dalglish, Ruud Gullit, Gary Lineker og Gianluca Vialli. Gera má ráð fyrir að mótsgjaldið fyrir þá sé frekar hátt enda ekki á hverjum degi sem slíkir menn fá að spila með bestu atvinnumönnum heims í stórmóti.

Áhugaverðustu liðin í ár eru: Thomas Björn / Peter Schmeichel, Nick Faldo / Samuel L. Jackson og Colin Montgomerie / Hugh Grant.

Þeir sem fengu boð um þáttöku í mótinu voru:

1) Efstu 50 á heimslistanum
2) 12 af Asian PGA Tour, Australasian PGA Tour og Southern Africa PGA Tour.
3) 20 í boði styrktaraðila
4) Ef sæti eru laus þá eru farið eftir peningalista European Tour

Þeir sem vilja fylgjast með mótinu geta gert það á SkySports 1 (fimmtudag og föstudag) og SkySports 3 (laugardag og sunnudag).

Heimasíða mótsins er: http://www.dunhilllinks.com


Heimildir:
http://www .dunhilllinks.com
http://www.europeantour.com/tourname nts/latest.sps?iTourNo=2003060
http://www.standrews.or g.uk/history/dunhill.htm
——————-