WGC - World Golf Championships Um helgina lauk NEC Invitational mótinu sem haldið var á Firestone vellinum í Ohio USA. Þetta var mjög sterkt mót þar sem að þátttökurétt höfðu 50 efstu kylfingarnir á heimslistanum ásamt öðrum sem boðið var vegna góðs gengis á árinu.

NEC Invitational mótið er eitt af fjórum mótum á WGC mótaröðinni. Mig langar til að fjalla örlítið um WGC sem að mínu mati er mjög merkileg mótaröð. Hún kallast fullu nafni World Golf Championships og eitt er ljóst, allir atvinnukylfingar vilja fá þátttökurétt því þar keppa aðeins þeir bestu og miklir peningar eru í boði.

Árið 1996 komust fimm af stærstu mótaröðum heims að samkomulagi um sameiginlega mótaröð sem hefja ætti göngu sína þremur árum síðar. Þessar fimm mótaraðir voru: European Tour, Japan Golf Tour, PGA Tour, PGA Tour of Australasia og Southern Africa Tour. Árið 1999 bættist Asian PGA í hópinn og í mars 2000 var Canadian Tour einnig bætt við.

Eins og ákveðið var hófst WGC mótaröðin árið 1999 með þremur mótum: Accenture Match Play Championship, NEC Invitational og American Express Championship. Jeff Maggert sigraði á fyrsta mótinu af þessum þremur en Tiger Woods á næstu tveimur. Ári seinna var fjórða mótinu bætt við: World Cup sem er liðakeppni með tveimur úr liði frá hverju landi. Tiger Woods og David Duval sigruðu á því móti það árið.

Mótin á World Golf Championship mótaröðinni hafa verið fjögur talsins ár hvert frá 2000. Keppt hefur verið í 5 heimsálfum og mótin eru haldin með mismunandi fyrirkomulögum: holukeppni, höggleik og liðakeppni. Öll mótin eru boðsmót og alltaf er sama regla á því hverjum er boðið. Efstu 50 kylfingar hverju sinni á heimslistanum fá þátttökurétt ásamt 20-30 öðrum sem t.d. hafa unnið mót á árinu eða unnið önnur afrek. Þessi regla tryggir að hvert mót er mjög sterkt og fyrir vikið eru þessi mót öll mjög vinsæl og fá mikið áhorf. Verðlaunaféð er í takt við það, í öllum mótunum fær sigurvegarinn rúmlega $1.000.000 USD sem er með því hæðsta sem þekkist í golfmótum atvinnumanna. Einnig er það sameiginlegt með öllum mótunum að bikarinn fyrir 1. sætið er mjög sérstakur í útliti, fallega myndskreyttur og nútímalegur.

Hérna er listi yfir þau fjögur mót sem haldin eru ár hvert og alltaf á sama tíma:

Febrúar - Accenture Match Play Championship (holukeppni)
Ágúst – NEC Invitational (höggleikur)
September – American Express Championship (höggleikur)
Nóvember – World Cup (liðakeppni)

Tiger Woods sigraði David Toms í holukeppninni í febrúar og Darren Clarke sigraði NEC Invitational mótið nú í ágúst. Þann 30. september til 5. október munu 65-70 kylfingar keppa á American Express Championship sem haldið verður í Capital City Club, Atlanta USA og 11. til 16. nóvember fer World Cup liðakeppnin fram í South Carolina þar sem 24 tveggja manna lið frá 24 þjóðum keppa í fjórleik og fjórmenning.

Heimild: www.worldgolfchampionship.com
——————-