Frá því að ég fór að spila golf hef ég reynt að heimsækja aðra golfvelli að sumri til. Það er alltaf gaman að spila á nýjum velli og vera í nýju umhverfi. Ég hef nú ekki spilað alla velli á Íslandi. Samt langar mig til að segja ykkur frá þeim golfholum sem mér hefur þótt gaman að spila og glíma við.

Holan sem er í fyrsta sæti hjá mér er á Meðaldalsvelli á Þingeyri. Brautin er númer sjö og er 129 metrar, par 3. Það þarf að slá yfir vatn alla leið og inn á flöt. Ef höggið mistekst þá fer það í lækinn hægra meigin. Reyndar er smá stykki sem hægt er að lenda á hinu megin við vatnið hægra meigin ef menn eru ragir að slá beint á flöt. Vinstra meigin er brekka og það getur verið varasamt að lenda þar. Svo það þarf beint, nákvæmt og gott högg til að komast inn á flöt og fá par. Frábær hola með fallegt útsýni.

Holan sem er í öðru sæti hjá mér er á Katlavelli á Húsavík. Brautin er númer fjögur, ber nafnið lautin. Brautin er 436 metrar, par 5. Tvö góð högg þarf til að sjá flaggið. Til beggja handa eru brekkur með lyngi í. Passa þarf sig því vel upp á þriðja höggið inn á flöt sem er á palli fyrir ofan leikmanninn. Í kringum flötina er lyngið og því er möguleiki að lenda í vondum málum ef þriðja höggið er ekki gott. Frábær hola sem gaman er að spila aftur og aftur.

Holan sem er í þriðja sæti hjá mér er á Hamarsvelli í Borgarnesi. Brautin er númer fimm og er 326 metrar, par 4. Eftir að upphafshögg er tekið þarf að slá annað högg inn á flöt. Fyrir framan hana er tjörn og ekki gott að lenda þar í. Höggið þarf að vera gott og beint. Hola sem lætur lítið yfir sér en er falleg á að horfa á og spila.

Holan sem er í fjórða sæti hjá mér er á Víkurvelli í Stykkishólmi. Brautin er númer níu og er 111 metrar, par 3. Af teignum er fallegt útsýni og í fljótu bragði virðist þessi hola vera nauðaeinföld og ómerkileg golfhola. En svo er ekki. Kylfingar þurfa að slá yfir hól sem er með lyngi, grasi, grjóti og mold og getur það tekið á taugarnar að lenda þar. Ef höggið er of stutt lenda þeir í laut fyrir framan flötina og þá er gott að eiga lobbjárn. Ef menn eru of langir er voðinn vís. Grjót og aftur grjót, gras, lyng og þarf að slá hátt högg ef menn eru of langir. Hér er best að lenda inn á flötinni en þá þarf teighöggið að vera 100% gott. Golfhola sem er lítil, skemmtileg en krefjandi.

Holan sem er í fimmta sæti hjá mér er á Litlu­Eyrar Velli á Bíldudal. Brautin er númer sex og er 212 metrar á lengd, par 4. Þetta er frekar stutt par 4 hola. Hér er möguleiki á fugli ef leikið er skinsamlega. Þeir sem slá langt geta náð inn á flötina í upphafshöggi en þá þarf það að vera nákvæmt. Því glompa er fyrir framan flötina og lækur hægra meigin við. Í kringum hana er hátt gras sem getur tekið við ónákvæmum golfhöggum. Einnig er sá möguleiki að geta farið yfir veginn og þá ………… er ekki að sökum að spyrja. Einföld en skemmtileg hola sem getur verið manni dýrkeypt ef illa er spilað. Einnig má minnast að útsýni frá golfskálanum við fyrsta teig er stórkostlegt.

Svona í lokin langar mig að gefa ykkur upp þrjá skemmtilega velli sem ég spila af og til á.

1. Meðaldalsvöllur á Þingeyri. Hrein náttúruparadís í góðu veðri og útsýnið er frábært.
2. Hamardalsvöllur í Borgarnesi. Alltaf gaman að spila hann. Vinalegt umhverfi og góður andi virðist svífa þarna yfir.
3. Vatnahverfisvöllur á Blöndósi. Skemmtilegur völlur sem er rétt fyrir utan bæinn. Að spila þar er að vera eins og Palli sem var einn í heiminum.

Að lokum óska ég ykkur kylfingar góðir velfarnaðar á golfvellinum það sem eftir lifir sumarsins og vonandi eigið þið góðar minningar sem þið getið yljað ykkur upp við svo yfir vetrartímann.