Jæja, þá er loksins komið að stærsta móti sumarsins.

Þetta verður án efa mjög spennandi keppni og tel ég að þessir menn verði í baráttunni í karlaflokki:

Birgir Leifur Hafþórsson, spilaði magnað golf á meistaramóti GKG og hlýtur að vera sá sem er sigurstranglegastur fyrir mótið.

Björgvin Sigurbergsson, hefur staðið sig vel í atvinnumennskunni á árinu og spilaði vel á meistaramóti GK fyrir utan auðvitað síðasta daginn.

Ólafur Már Sigurðsson, sigraði á meistaramóti GK, hlýtur að vera mjög sterkt.

Sigurjón Arnarsson, hefur lítið æft, en spilað mjög vel í flestum mótum sem hann hefur tekið þátt í og vann þar að auki meistaramót GR.

Úlfar Jónsson, sexfaldur íslandsmeistari og veit hvernig það er að vinna íslandsmót. Hann er ætíð til alls líklegur þegar golf er annars vegar.

Örn Ævar Hjartarson, veit lítið um stöðuna á erninum þessa dagana fyrir utan það að hann vann meistaramót GS. Á góðum degi er enginn betri en örninn.

Síðan er spurning hvernig íslandsmeistaranum sjálfum vegnar, Sigurpáli, en hann getur á góðum degi spilað frábært golf eins og sást á Hellu í fyrra.

Hjá stelpunum er fyrir fram auðvelt að sjá að þessar verða í baráttunni:
Anna Lísa Jóhannsdóttir, kom mjög á óvart og vann sitt fyrsta stigamót á Skaganum í vor. Hún spilaði einnig vel á meistaramóti GR, fyrir utan síðasta daginn.

Ragnhildur Sigurðardóttir, vann meistaramót GR og hefur gríðarlega reynslu sem mun nýtast henni vel.

Þórdís Geirsdóttir, hefur á mjög undarlegan hátt verið vanmetin í umræðunni uppá síðkastið. Ég á von á henni mjög sterkri í þetta mót, hvort hún vinnur eða ekki skal ósagt látið.

Helga Rut Svanbergsdóttir, vann meistaramót GKj, og einnig íslandsmótið í holukeppni, þannig að hún er mjög sterk að þessu sinni.

Ólöf María, sem hlýtur að teljast langsigurstranglegust í móti, enda búin að vera að æfa allt árið í Bandaríkjunum.

Ekki er líklegt að fleiri blandi sér í baráttuna hjá kvenfólkinu, en það er þó aldrei að vita.

Mín spá varðandi endanleg úrslit er þessi:

Karlaflokkur:
1. Birgir Leifur Hafþórsson
2. Björgvin Sigurbergsson
3. Úlfar Jónsson

Kvennaflokkur:
1. Ólöf María Jónsdóttir
2. Þórdís Geirsdóttir
3. Anna Lísa Jóhannsdóttir

Gaman væri að heyra hvaða kylfingar ykkur finnast líklegastir :-)