Bandarískur áhugamaður í golfi, Mike Freeman frá Orlando, hefur misst áhugamannaréttindi sín þar sem hann þáði bifreið að gjöf frá sjálfum Tiger Woods 1. maí sl. Málavextir eru þeir að Freeman var að leika golf ásamt félögum sínum á Legacy-golfvellinum í Longwood í Orlando og þegar þeir gengu á teig við 12. braut vallarins sem er par 3 hola birtist Woods skyndilega og spurði hvort hann mætti leika með þeim næstu holur vallarins. Að sjálfsögðu var Woods boðið að vera með og sagði Woods að best væri að þeir kepptu um hver yrði næstur holu á 12. braut.
Freeman náði besta högginu og var um 3 metra frá holu og þegar úrslitin voru ljós afhenti Woods honum bíllykla að Buick-bíl sem stóð við flötina og sagði að bílinn væri nú í eigu Freemans og þáði áhugamaðurinn gjöfina af Woods.

Það sem Freeman og félagar hans vissu ekki var að ESPN-sjónvarpsstöðin hafði sett upp margar myndavélar við brautina og tók allt ferlið upp frá upphafi til enda og var þessi atburður uppistaðan í auglýsingaherferð á vegum Buick á ESPN-sjónvarpsstöðinni.

Bandaríska golfsambandið, USGA, brást við með þeim hætti að svipta Freeman áhugamannaréttindum enda var verðmæti bifreiðarinnar langt yfir leyfilegum mörkum hvað varðar áhugamannreglur. Freeman er ósáttur við niðurstöðuna en hann segir að Buick-fyrirtækið og ESPN hafi notfært sér aðstöðu sína og að hann hefði ekki beðið um neitt frá Woods og vill nú fá tækifæri til þess að skila bílnum en áhugamenn mega aðeins taka við verðlaunum að verðmæti um 45 þúsund ísl. kr á þeim mótum sem þeir taka þátt í.

Forráðamenn USGA eru hins vegar ekki á því að gefa neitt eftir í þessu máli og getur Freeman ekki varið titil sinn sem áhugamannameistari í Orlando-fylki hinn 25.-27. júlí nk.

Tekið að síðu Morgunblaðsins þann 14.júlí www.mbl.is

Hvað finnst ykkur um þetta? Ég er sammála Mike Freeman um að Espn hafi notfært sér aðstöðu sína í þessu máli.

kv. Ripp
I mean, isn't that just kick-you-in-the-crotch