Nú er að myndast umræða út í heimi um ágæti alls þess peningastreymis sem flæðir meðal atvinnumanna í golfi. Að mínu mati er allt of mikill peningur kominn inn í þessa ágætu íþrótt. Það eru ótrúlegar fjárhæðir sem leikmenn fá fyrir að vinna mót og auglýsa alls kyns vörur. Þeir bestu fá jafnvel greitt fyrir að aðeins mæta í mótin og sýna sig!

Ein af ástæðunum fyrir því að atvinnuboxarar keppa aðeins 1-2 sinnum á ári er sú staðreynd að hungraðir boxarar eru betri boxarar. Það sama gildir í öllum íþróttum, líka golfi. Hvað verður um hungrið þegar þú ert að keppa að einhverju sem þú veist innst inni að þú átt nóg af? Hjá flestum minnkar það en auðvitað eru undantekningar á því. Gott dæmi er Sam Snead. Hann áttaði sig á því nokkrum árum eftir að hann “lagði skóna á hilluna” að hann hætti að vinna um sama leyti og hann hafði náð að safna sér fyrir einu stykki búgarði með öllu tilheyrandi. Þegar hann var ungur dreymdi hann um að eignast búgarð einn daginn og þegar hann keppti á mótunum var það það eina sem hann hugsaði um, að vinna pening til að kaupa búgarð og svo bæta í hann hægt og rólega.

Ég vorkenni þessum ungu og efnilegu kylfingum sem eru að koma upp núna eins og t.d. Paul Casey, Justin Rose og Sergio Garcia. Ef þeir vinna nokkur mót fram að þrítugsaldri geta þeir auðveldlega lagst í helgan stein. Slíkt getur ekki verið gott fyrir metnaðinn og spurning hvort þetta sé að verða Tiger að falli. Hann hefur aðeins keppt í 6 mótum í ár og t.d. ekki keppt síðan á Masters!

Fólk fagnaði Aniku Sörenstam þegar hún tók þátt í US PGA móti um síðustu helgi. Fólk fagnaði því þar var hún að keppa við karlmenn sem telst stórmerkilegt. En hversu merkilegt er það þegar maður hugsar til þess að fyrir að keppa í þessu móti fékk hún endalaust mikinn pening fyrir auglýsingar þar sem þetta vakti svo mikla athygli. Hver var aðalástæðan fyrir þátttöku hennar? Talið er að Karen Webb verði næst á svið, það er búið að bjóða henni háar summur fyrir að berjast við karlana.

Að mínu mati þarf að draga úr peningastreyminu til að vernda metnaðarsama og hungraða kylfinga. Það er ekki gaman að fylgjast með golfmótunum þegar það vantar þá bestu eins og t.d. Tiger.
——————-