Hefur Nike tekið allan kraft úr Tiger ? *Tekið að mestu úr grein sem birtist í The Guardian 8. apríl*

Tiger Woods er enn án nokkurs vafa besti kylfingur heimsins. Hann hefur einnig verið talinn sá högglengsti um áraraðir en aðrir kylfingar eru nú farnir að slá boltann mun lengra en hann. Spurningin er hversu stórt áhyggjuefni þetta er fyrir Tiger Woods og hverju er um að kenna?

Þegar Tiger tók sitt fyrsta teighögg sem atvinnumaður fyrir sjö árum sló hann það 336 yarda og varð upp frá því talinn “The king of driving distance”. Í dag er Tiger í 37. sæti yfir þá högglengstu á PGA og hefur tapað því forskoti sem hann elskaði að hafa umfram aðra. Sumir vilja meina að það sé sök Nike vegna þess að bæði driverinn og golfboltinn sem Tiger notar frá Nike séu ekki samkeppnishæfir við það besta. Síðan Tiger skipti úr Titleist golfkylfum og ProV1 boltanum hefur meðalhögglengd hans hrapað verulega. Á sama tíma eru flestir að lengja sig. Ekki er Tiger aðeins farinn að slá styttra heldur hittir hann færri brautir en áður, hlutfall hans í hittum brautum hefur aldrei verið lægra síðan hann gerðist atvinnumaður.

Phil Mickelson gerði allt vitlaust fyrir skömmu þegar hann sagði í viðtali: “Tiger is the only player in the world good enough to win using inferior equipment. He hates it when I bomb it past him off the tee”. Þeir hjá Nike voru ekki sáttir við þessi ummæli PM og réðust að Titleist sem brostu og bentu bara á staðreyndirnar. Þegar Phil Mickelson talar um “inferior equipment” er hann að meina að golfboltinn og driverinn sem Tiger er með í pokanum séu síðri að gæðum en það sem aðrir nota, þ.á.m. PM sjálfur. Þetta er rétt því ef litið er á topp 20 listann yfir þá högglengstu á PGA sést að 14 af þeim nota Titleist driver og ProV1. Tiger notar í dag Nike járn, Nike driver (9,5°) og Nike golfbolta en er ennþá með Titleist wedga, Titleist brautartré og Titleist Scotty Cameron pútter í pokanum sínum.

Að sjálfsögðu er enginn að segja að Tiger sé ekki nógu langur. Árangur hans í ár er frábær, hann hefur unnið 3 mót af þeim 6 sem hann hefur tekið þátt í. Það sem fólk er að segja er að þessi styttri högg geti háð honum í framtíðinni og kostað hann sigra. Sú virðist vera raunin hjá David Duval sem hefur verið í mikilli lægð síðan hann skipti úr Titleist í Nike eins og Tiger gerði. Sagt hefur verið að Jack Nicklaus hefði getað unnið helmingi fleiri risamót en hann gerði á ferlinum því rannsakað hefur verið að McGregor golfboltinn sem hann notaði á hápunkti ferils síns var alls ekki jafn góður og þeir boltar sem voru vinsælastir á þeim tíma. Vill Tiger hætta á að sömu hlutir verði sagðir um hann eftir nokkur ár eða er hann það góður að hann getur hvort sem er sigrað með síðri golfbúnaði?
——————-