Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur frá Akranesi, er genginn til liðs við Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar. Aðspurður sagði Kylfingurinn ungi, sem allan sinn feril hefur spilað fyrir hönd Golfklúbbsins Leynis, að tími hefði verið kominn til að breyta um umhverfi og að margir þættir hafi spilað inn í þá ákvörðun sína að ganga í raðir GKG kylfinga. En hann vill koma sérstökum þökkum til Golfklúbbsins Leynis fyrir stuðninginn og samstarfið í gegnum árin.

“Ég vissi af því uppbyggingarstarfi sem fram hefur farið í klúbbnum og að þar er unnið eftir mjög metnaðarfullri afreksstefnu sem ég tel geta stutt mjög vel við markmið mín um að vinna mér inn þátttökurétt á evrópsku mótaröðinni. Þá skemmdi ekki fyrir að í klúbbnum voru fyrir gamlir félagar mínir af Akranesi, Ragnar Þór Ragnarsson og Kristinn G. Bjarnason, og hlakka ég mikið til að æfa og spila með strákunum.”

”Einnig verð ég að segja að stuðningur forráðamanna klúbbsins gagnvart markmiðum mínum sem atvinnukylfingi og skilningur þeirra á þeim aðstæðum sem ég þarf á að halda hafi komið mér mjög á óvart. Það er augljóst að þar á bæ vilja menn byggja upp hagstæð skilyrði fyrir bestu kylfinga sína til þess að þeir geti fetað í fótspor annarra íslenskra atvinnukylfinga og vonandi unnið sér inn þátttökurétt á stóru mótaröðunum. Ég held að innkoma mín í klúbbinn eigi því eftir að verða öllum til góðs: Þar eru mjög margir sterkir kylfingar sem munu skerpa á keppnishörku minni og ég mun án efa geta miðlað til þeirra af reynslu minni.”

"Ég bý núna ásamt fjölskyldu minni á höfuðborgarsvæðinu og er því ekkert að vanbúnaði að byrja strax að mæta á æfingar hjá afrekskylfingum klúbbsins og fljótlega í framhaldi af því halda í víking á þau mót sem mér munu standa til boða. Ein breyting sem mun verða á keppnisáætlun minni frá síðustu árum er fjöldi þeirra móta sem ég mun taka þátt í á Íslandi. Ég verð að segja að ég hlakka mikið til þess að keppa meira hér heima, og þá sérstaklega á Íslandsmótinu, en þar hef ég ekki verið með síðan í Vestmannaeyjum, 1996. Annars er ég mjög bjartsýnn á gott gengi á árinu bæði heima og heiman og er staðráðinn í því að ljúka því sem ég hef verið svo oft nálægt síðustu árin—að komast inn á evrópsku mótaröðina.”

Þetta er tekið af síðu GKG á golf.is

Hvað finnst Fólki um þetta?????