Mörgum sem ferðast hafa erlendis í golf hafa tekið eftir hve klúbbhúsin þar eru mjög svo vegleg og bjóða klúbbfélögum oft athvarf frá hinu daglega amstri hversdagslífsins. Þeir bjóða upp á góða veitingasölu ásamt góðum sal með sófum þar sem hægt að horfa á golfdagskrá meðan borðað er, vegleg búningsaðstaða með gufubaði og heitum potti er ekki óalgeng.
Ég hef ferðast nokkuð út fyrir landsteinana til að spila golf og hefur mér þótt þetta til mikilla prýði að geta boðið golfurum upp á smá afþreyingu, þetta kemur í veg fyrir það að maður komi 10 mín fyrir teig og spili í fjóra tíma og hlaupi svo á bílastæðið og keyri í burtu.
Þessi íslenska hefð þykir mér ekki til fyrirmyndar og þykir mér það klúbbanna að tryggja að aðstaða fyrir klúbbamenningu sé til staðar.
G.R. tók grafarholtsskála til gagngera breytinga og gerði klúbbhúsið nánast fokhelt áður en þeir byggðu innviði þess upp á nýtt. Þessar endurbætur hefðu mátt vera meira útpældar, m.a. var dýrindis parket sett á salinn þannig að maður getur ekki gengið inn á golfskónum og fengið sér að borða og kannski einn kaldann eftir golfhring nema að fara úr skónum. Það vita allir golfarar að það telst til ofbeldis að fara úr skónum eftir 18 holur fyrir framan ókunnuga. Það hefði auðveldlega verið hægt að setja náttúrustein á salinn og leyst þetta leiðindavesen og hefði verið mikil prýði af.
Búningsaðstaðan í grafarholtsskála er mjög glæsileg en frekar vannýtt að mér finnst. Þarna hefði verið sniðugt að koma fyrir heitum potti eða gufubaði þar sem hægt hefði verið að koma saman og skeggræða síðustu holur.
Ýmis smáatriði sem þessi koma að gagni til að fá golfara til að tengjast betur og eyða tíma í sínum klúbbi. Þetta myndi með tímanum koma af stað smá klúbbastemningu sem oft vantar hér á Íslandi. Klúbbar ættu að leggja höfuð vel í bleyti áður en ráðist er í byggingu golfskála og pæla aðeins hvernig þeir geti aukið viðveru klúbbfélaga sem og boðið þeim upp á þá afþreyingu sem golfarar meta mest.

kv,
Ingi Jarl