Sælir golfarar ég vil bara koma smá frétt til ykkar því að ég er stolltu af klúbbnum mínum (Keili)

Golfklúbburinn Keilir fær hvatningarverðlaun Ferðamálanefndar í Hafnarfirði


Í hófi sem Ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar hélt í gær, fimmtudag, var Golfklúbbnum Keili afhent hvatningarverðlaun Ferðamálanefndar fyrir góða framistöðu í þjónustu og skipulagningu við ferðamenn.

Ferðamálanefnd tilnefnir til hvatningarverðlaunanna og það eru síðan ferðaþjónustuaðilar í Hafnarfirði sem greiða atkvæði. Tilgangur með verðlaununum er að hvetja ferðaþjónustufyrirtæki til dáða og vekja athygli á ferðaþjónustu í Hafnarfirði.
Golfklúbburinn Keilir hefur á undanförnum árum markvisst byggt upp góða og sérstaka aðstöðu á Hvaleyri. Vallarstæðið er einstakt, samofið hraunlandslagi við úthaf. Þar er nú völlur í fullri stærð (18 holur), æfingavöllur (9 holur), æfingaskýli og klúbbhús með veitingaaðstöðu og golfbúð, sem einnig leigir gestum búnað.
Á þrítugasta afmælisári klúbbsins (1997) var unnin stefnumótun þar sem m.a. kemur fram að klúbburinn leggur áherslu á markaðsmál og leggi Hafnarfirði sem ferðamannabæ lið. Gestum er vel tekið, þeim er útvegaður nauðsynlegur búnaður og geta pantað rástíma sem aðrir. Þar sem þessir lausagestir koma oftast utan annatíma bitnar það ekki á aðgengi klúbbfélaga.
GSÍ óskar klúbbnum til hamingju með tilnefninguna um leið og það brýnir aðra golfklúbba til dáða í að standa vel að þjónustu við ferðamenn.