Ég hef nú aldrei verið neitt sérlega trúaður á að geimverur séu að heimsækja mjög reglulega, en ég er heldur ekkert sérlega vantrúaður á það. Það sem kannski veldur helst vantrú á það, er sú staðreynd að þetta hefur aldrei verið áþreifanlega sannað! Helst einhverjar sögusagnir og oft virðast þeir sem vitni verða að slíku vera ósammála um form og lögun bæði geimvera og farartæki þeirra. Jæja, en það sem rekur mig til að skrifa þessa grein er sú staðreynd, að aðfararnótt 8. september sl var ég ásamt vinkonu minni í bíltúr og einn viðkomustaður okkar var Kleifarvatn. Við stoppuðum við suðurenda vatnsins og vorum svona að virða fyrir okkur stjörnurnar og norðurljósin. En eftir að hafa verið þarna í uþb 15 mínútur í algerri þögn og með öll ljós slökkt, gerðist dálítið undarlegt. Uppúr vatninu steig skyndilega einhverskonar gufubólstri og vatnið umhverfis hann varð allt upplýst. Svona var þetta í kannski einar 10 mínútur og við störðum á þetta eins og í leiðslu þangað til þetta hætti jafn skyndilega og það byrjaði. Mér datt fyrst í hug að þetta væri gufuhver þar sem nokkuð er um þá á þessu svæði, en reyndar veit ég ekki til þess að þeir gjósi uppúr vatninu, auk þess sem þetta var öllu greinilegra en þess háttar gufubólstrar. Á það skal bent að við vorum bæði með fullri rænu og höfðum hvorugt neitt vímuefna eða áfengis, þannig að við trúum að við höfum séð eitthvað merkilegt. Hafi einhver skýringu á reiðum höndum er sá hinn sami beðinn að koma henni á framfæri. Lifið heil.