Rússar hvetja til ferðar til Mars Nú hafa Rússar tekið af skarið og sagt að þeir séu tilbúnir í að senda mannað geimfar til Mars fyrir árið 2015.

Ferðin á að taka um 440 daga (fram og til baka), en áætlað er að geimfararnir verði á plánetunni rauðu í um 1 til 2 mánuði. Munu þeir kanna plánetuna og líklegt er að þeir munu notast við svipaðan jeppa og var notaður á tunglinu á sínum tíma.

Verða 2 geimför send, hið fyrra með vistir og hið síðara með sjálfa geimfarana.

Rússar geta þó ekki staðið að þessu einir og vilja fá stærstu þjóðir heims til að taka þátt í þessu verkefni, en sjálfir segjast þeir geta skaffað um 30% af þeim $20 billion dollurum sem þarf til verkefnisins.

NASA (geimferðastofnun bandaríkjanna) og ESA (geimferðastofnun evrópu sem 15 þjóðir standa á baki við) hafa sýnt einhvern áhuga á þessu, þó of snemmt sé að segja til um hvort þessar stofnanir, eða önnur lönd, vilji eða geti tekið þátt í þessu.

NASA hefur þó átt við mikla fjárhagserfiðleika að stríða, mikið viðhald er við geimskutluflotann sem er orðinn mjög gamall og alþjóðlega geimstöðin sem krefst mikilla fjárútláta. Svo ekki sé minnst á önnur óteljandi smærri verkefni. ESA er heldur ekki stór stofnun miðað við NASA, en þó hefur ESA verið að gera marga áhugaverða hluti fyrir lítið fjár.

Rússar hafa þó ekki sent neinum formlegar tillögur um þetta né upplýsingar um hvernig þeir ætli að framkvæma þetta.