Aftur til framtíðar, til tunglsins! Já, NASA kynnti núna á mánudaginn framtíðarplön sín, sem eru að koma mönnum aftur til tunglsins fyrir árið 2020.

NASA ætlar að búa til tvennskonar eldflaugar, eina sem skýtur upp lendingarfarinu (sem lendir á tunglinu) og eina sem skýtur upp áhöfninni og farartækinu þeirra (sem ferðast um á tunglinu).

Margir hafa gagnrýnt þessa áætlun, en aðrir hafa fagnað þessu. Þó eru flestir sammála um að þessi áætlun líkist mjög Apollo geimferðaáætluninni sem BNA/NASA var með í gangi fyrir um 30 árum síðan. Geimförin líkjast mjög Apollo eldflaugunum (þó verða hin nýju mun stærri), og hafa margir kallar þetta “Apollo 2.0”. Hin nýju geimför verða ekki endurnýtanleg (fyrir utan “capsule” sem geimfararnir lenda aftur í á jörðinni).

Þó svo að flestir séu ánægðir með að NASA sé komin með einhverja skýra framtíðarsýn, þá telja margir sérfræðingar að NASA gangi ekki nógu langt með þessari áætlun sinni. Margir hafi bent á að það að fyrir 30 árum síðan bjuggust margir við því mannfólkið væri byrjað að búa á tunglinu um árið 2000. Og nú árið 2005 stefnum við að snúa aftur til tunglsins árið 2020 með nánast sama hætti og við gerðum árið 1969.

Má benda á að þegar og ef NASA framfylgir þessari áætlun sinni, og lendi geimfari á tunglinu árið 2020, þá verða liðin meira en 50 ár síðan fyrstu geimfararnir lentu á tunglinu með sama hætti.


En NASA hefur einfaldlega ekki þá fjármuni sem þarf til að ráðast í gríðarmiklar framkvæmdir, s.s. tunglstöð. Mikil byrði hvílir á NASA, má þar nefna geimferjuflotann og alþjóðlegu geimstöðina. Margir hafa sagt að NASA ætti að losa sig undan ábyrgð vegna þessara beggja og einbeita sér að einhverju stóru verkefni, s.s. tunglstöð, og svo ferðar til Mars. NASA mun heldur ekki fá neinar aukafjárheimildir hjá bandaríska þinginu, heldur þarf NASA að notast við það fjármagn sem það fær nú þegar. Sem er mjög ólíkt því sem var uppi á teningunum á sjöunda áratugnum, þar sem stór hluti skatttekna bandaríkjanna fór til geimferðaáætlunnar.
Mitt persónulega álit á þessu öllu saman er að þetta er gott skref hjá NASA, en þó hefði ég viljað sjá tunglstöð inni í þessum áætlunum, og að NASA myndi draga sig úr alþjóðlegu geimstöðinni (sem virðist ekki skila neinu) og í raun henda þessum geimferjuflota á haugana.

Tunglstöð er það sem marga dreymir um, og hefur dreymt um í tugi ára, að byggja upp varanlega rannsóknarstöð á tunglinu, sem væri alltaf mönnuð, og að hún gæti verið sjálfbær að miklu leyti. Búið er að gera miklar rannsóknir og tilraunir með svokölluð “Bio-Dome”, eða lífhvelfingar, þar sem búið er að endurskapa umhverfi á jörðinni í hvelfingu.

Alþjóðlega geimstöðin er bundin ákveðnum takmörkunum að sitja ekki á plánetu, á einhverjum jarðvegi. Erfitt er að fara út fyrir hana til að lagfæra hluti, en á meðan á tunglinu er hægt að ganga um þar. Menn geta notað ímyndunaraflið, en í raun væri ekkert takmark á því hve margar hvelfingar, og í raun stórt landsvæði, væri hægt að leggja undir sig á tunglinu. Hægt væri að framleiða súrefni þar með aðstoð plantna, endurnýta allt vatn, framleiða rafmagn með sólarorku, eða jafnvel nýta kjarnorkuna. Að auki er þyngdarafl á tunglinu, svo að fólk getur án efa dvalið lengur þar heldur en í algjöru þyngdarleysi.

En fyrstu skrefin til að búa til tunglstöð er ekki að senda menn þangað, heldur að koma nauðsynlegum efnum, búnaði og aðstöðu upp þar. T.d. væri hægt að senda þangað vélmenni sem væri stýrt af jörðu niðri, þau myndu sjá um að byggja nauðsynlega aðstöðu fyrir mannfólkið, þau myndu í raun reisa þessar lífhvelfingar. Þetta er allt vel hægt, og hafa vísindamenn reynt að sýna fram á að þetta sé vel hægt.

Í raun mætti segja að tunglstöð í þessu ívafi sé undanfari þess að menn ferðist til mars, og undirbúi svipaða marsstöð þar. En ég er persónulega ekkert að vonast eftir ferð til mars alveg á næstu áratugum.


Nú er bara að bíða og sjá hvort NASA mun gera.