Geimverutrúarbrögð II Ég vona að geimverur séu til en hef hins vegar litla trú á því að þær hafi komið til jarðarinnar. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

1. Geimferðalög milli sólkerfa eru hættuleg. Til þess að komast á skikkanlegum tíma á milli sólkerfa þarf mikinn hraða (sem er e.t.v. 1-10% af ljóshraðanum). Þótt mögulegt reyndist að útvega þá orku sem þarf til þess að koma geimskipi á þennan hraða (og stöðva það síðan) væri það í mikilli hættu. Ef geimskipið rækist á örlitlar rykagnir (sem nóg er af í sólkerfinu okkar) væri allt eins líklegt að þær færu í gegnum geimfarið eða löskuðu það verulega vegna orkunnar sem losnaði við áreksturinn. Frank Drake, einn af helstu forvígismönnum SETI-rannsókna í heiminum, fjallar um þetta vandamál í viðtali við Stjörnufræðivefinn.

2. Ekki eru til nein sönnunargögn um heimsóknir geimvera. Þar með er ekki sagt að allir sjónarvottar séu að ljúga eða að allar ljósmyndirnar af geimverunum séu falsaðar. Oft er hægt að útskýra þessi tilfelli út frá einföldum fyrirbærum (skýjum, loftsteinum, flugvélum, fuglum, eldingum, veðurloftbelgjum o.fl.) en einnig getur fólki upplifað hluti, t.d. milli svefns og vöku, sem virðast mjög raunverulegir en standast ekki nánari skoðun.

Í aðferðafræði vísinda er til hugmynd sem nefnist “rakhnífur Ockhams” sem vísar til þess að vísindamenn skyldu reyna að styðjast við sem allra einfaldastar skýringar, nema flóknari skýringin sé studd staðreyndum. Hvort ætli sé til að mynda líklegra að það sem fannst í Roswell 1947 sé leifar veðurloftbelgs eða geimveru?

Þeir sem halda því fram að geimverur hafi lent á jörðinni eða jafnvel numið þá á brott virðast hafa verið heldur óheppnir við öflun sönnunargagna máli sýnu til stuðnings. Þeim hefur ekki tekist að ná í eitt einasta sýni úr geimveru og ekki hefur heldur fundist ein einasta málmflís úr fljúgandi furðuhlut. Ef svona sýni fyndist yrði það mjög dýrmætt og þyrfti að varðveita mjög vel svo margir óháðir vísindamenn gætu rannsakað sýnið.

Einnig er það svolítið furðulegt að þrátt fyrir ótal vitnisburði um fljúgandi furðuhluti hefur enginn þeirra sést á gervitunglamyndum eða með ratsjárkerfum stórveldanna. Svarið við þessari röksemd er oft á þá leið að (bandarísk) stjórnvöld séu þátttakendur í allsherjarsamsæri um að hylma yfir heimsóknir geimvera til jarðarinnar.

3. Hugmyndin um allsherjarsamsæri stjórnvalda stenst ekki nánari skoðun. Ef hún reyndist rétt þá þyrftu allar ríkisstjórnir heimsins að taka þátt í samsærinu. Tækju Íslendingar, Brasilíumenn eða Japanir endilega þátt í að hylma yfir heimsóknir geimveranna bara vegna þess að Bandaríkjamenn eða Englendingar sæju ástæðu til þess? Heimsækja geimverurnar ef til vill einungis þau lönd sem leyna tilvist þeirra?

Það er ekki tilviljun að titillinn á þessari grein og öðrum um svipað efni sé „Geimverutrúarbrögð“. Ítrekaðar staðhæfingar um tilvist geimvera við jörðina eiga nefnilega meira skylt við trú en vísindi. Það virðist nefnilega ekki skipta neinu máli þótt engin sönnunargögn styðji hugmyndina.

Þetta gengi ekki upp í vísindum. Þar verður tilgáta (hér: “geimverur hafa oft heimsótt jörðina á síðastliðnum áratugum”) ekki að vísindakenningu nema hún geti útskýrt eitthvert fyrirbæri í náttúrunni og sé rækilega rökstudd. Stjörnufræðingurinn Carl Sagan komst þannig að orði:„Stórbrotnar staðhæfingar krefjast stórbrotinna sönnunargagna.“ Þau skortir því miður í þessu tilfelli.

Hægt er að lesa meira um geimverutrúarbrögð á Stjörnufræðivefnum www.stjornuskodun.is.