Almyrkvi á tungli 28. október Ef veður verður hagstætt aðfaranótt fimmtudagsins 28. október verðum við vitni að glæsilegu sjónarspili - almyrkva á tungli. Frá Íslandi sést allur myrkvinn og hefst hann kl. 0:05 og lýkur kl. 6:08.

Tunglmyrkvar eiga sér stað þegar tunglið gengur inn í skugga jarðar á sama tíma og jörðin er stödd á milli sólar og tungls. Þessi niðurröðun þýðir að tunglmyrkvi getur aðeins orðið þegar tunglið er fullt. Tunglmyrkvi á sér þó ekki stað í hverjum mánuði því brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ekki samsíða. Tunglbrautin hallar um 5 gráður frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt yfir eða undir tunglið.

Skugga jarðar er skipt í tvo hluta, alskugga og hálfskugga. Alskugginn er dimmari en hálfskugginn mun daufari. Ef tunglið gengur inn í alskuggann, eins og nú í október, verður almyrkvi á tungli, en ef aðeins hluti af tunglinu er inni í alskugganum er myrkvinn kallaður deildarmyrkvi. Þriðja tegund myrkva kallast svo hálfskuggamyrkvi en þá fellur einungis hálfskuggi jarðar á yfirborð tunglsins. Slíkir myrkvar eru nánast ósýnilegir.

<b>Atburðarrásin</b>

Fyrsti atburðurinn á tímatöflunni á við þegar tunglið snertir fyrst hálfskuggann. Hálfskugginn er mjög daufur og því dofnar birta tunglsins ekki auðsjáanlega og erfitt er að sjá þetta.

En 40-50 mínútum síðar er forgönguhvel tunglsins komið svo djúpt í hálfskuggann að örlítið húm sést á vinstri hliðinni. Þetta er fyrsta sýnilega merki þess að myrkvinn er að hefjast. Á næstu 20-30 mínútum verður tunglið sífellt dekkra.

Deildarmyrkvinn hefst á aðeins einni eða tveimur mínútum, þegar forgönguhvel tunglsins byrjar að færast inn í alskuggann. Á neðarlega vinstra megin á tunglinu byrjar dökk dæld að myndast sem stækkar með hverri mínútu.

Á næstu klukkustund eða svo færist þessi dökki skuggi lengra og lengra yfir tunglið.

Bogadreginn skugginn sýnir okkur, svo ekki verður um villst, að jörðin er hnattlaga. Út frá þessari staðreynd ályktaði Aristóteles að jörðin væri hnöttótt þegar hann varð vitni að tunglmyrkva á 4. öld f.Kr.

<b>Litskrúðugur almyrkvi</b>

Þegar tunglið er komið inn í alskuggann, hverfur það ekki alveg vegna þess að skuggi jarðar er ekki algjörlega dökkur. Tunglið tekur þá á sig dökkrauðan eða kopar-appelsínugulan lit. Þessi litbrigði koma frá sólarljósinu sem fer í gegnum örþunna brún á lofthjúpi jarðarinnar og fellur á tunglið. Ryðrauði liturinn er sá sami og við sjáum við sólarupprás og sólsetur á jörðinni.

Geimfari sem stæði á yfirborði tunglsins við almyrkva sæi sólina falda bak við jörðina, en jörðin væri umvafin þunnum og glæsilegum rauðleitum hring. Þá sæi geimfarinn sólarljós allra sólsetra og sólarupprása á jörðinni í sama mund. Þetta ljósvarpar daufri skímu á yfirborð tunglsins.

Styrkleiki rauða hringsins utan um jörðina, og þ.a.l. liturinn á tunglinu við almyrkvann, fer eftir veðuraðstæðum á jörðinni og rykmagni í efri hluta lofthjúpsins. Heiðríkur lofthjúpur myndar jafnan bjartan og litskrúðugan almyrkva, þar sem kopar- og appelsínugulur litur er ráðandi. Á hinn bóginn geta eldsumbrot á jörðinni valdið þunnu ösku- og ryklagi upp í efri hluta lofthjúpsins sem veldur dökkleitari eða jafnvel svörtum almyrkva. Þetta gerðist skömmu eftir eldgosið í Pínatóbófjalli á Filippseyjum árið 1991, 1982 eftir gos í El Chichon-fjallinu í Mexíkó og 1963 eftir gos í Agung-fjalli í Indónesíu. Ekkert stórt eldgos hefur orðið nýlega svo líkur eru á að tunglmyrkvinn í október verði bjartur og litskrúðugur, líkt og seinustu myrkvar.

Litir innan alskuggans geta breyst mikið frá einum myrkva til hins næsta. Ef til vill verður neðri helmingur tunglsins í þessum myrkva gráleitur eða súkkulaðibrúnn, en efri hlutinn rauður.

Á skýringarmyndinni sést að tunglið fer norður yfir skuggamiðjuna. Þá virðist efri helmingur tunglsins örlítið bjartari en sá neðri. Þetta er vegna þess að efri helmingurinn verður nær ytri brún alskuggans.

Um miðbik myrkvans er ástæða til að taka eftir því hversu dimmur himinninn er orðinn. Venjulega er almyrkvað tungl um tíu þúsund sinnum daufara en hefðbundið fullt tungl.

Almyrkvinn stendur yfir í 81 mínútu. Að honum loknum hefst deildarmyrkvi aftur, en nú í öfugri röð, þar sem tunglið færist smám saman úr alskugganum. Sýningunni er þó ekki lokið þegar brún tunglsins er komin úr alskugganum því hálfskugginn ætti að haldast sýnilegur á hægri helmingi tunglsins í um 20-30 mínútur.

Þegar þessu er lokið, prýðir fullt tungl morgunhiminninn hátt í vestri séð frá Reykjavík.

<b>Hvernig á að mynda myrkvann?</b>

Það er nokkrum vandkvæðum bundið að taka mynd af tunglmyrkva því enginn veit nákvæmlega hve bjart tunglið verður. Besta ráðið er því að taka fjölda mynda með mismunandi lýsingartíma svo einhverjar myndir komi vel út.

Þegar hefðbundin myndavél er notuð er mikilvægt að muna að ef taka á stóra og fallega mynd þarf sterka myndavélarlinsu (með a.m.k. 300 mm brennivídd). Í raun þarf 2000 mm linsu - eða sjónauka með 2000 mm brennivídd til að setja myndavélina á - til að stækka tunglið nóg svo það fylli ramma 35 mm filmu.

Flestar stafrænar myndavélar hafa ekki linsu sem hægt er að fjarlægja. Því er ekki hægt að festa stafræna myndavél á sjónauka án millistykkis eða festingar. Þó má beina henni beint inn í augngler sjónaukans og smella þannig af. Þá er best að nota augngler með litla stækkun og muna að slökkva á leiftrinu.

Ef þú getur breytt sjálfvirkum lýsingartíma myndavélarinnar er meiri möguleiki á að ná góðri mynd. Helsti kostur stafrænu vélanna er að hægt er að sjá myndina strax og þá hægt að stilla vélina til að fá góða mynd.

<b>Tíðni tunglmyrkva - næsti almyrkvi er eftir tvö og hálft ár</b>

Tunglmyrkvar eru ekki sjaldgæf fyrirbrigði þótt sum ár verði enginn myrkvi, önnur ár einn, tveir eða jafnvel þrír. Sjaldgæfast er þó að á einu ári verði þrír myrkvar. Síðast gerðist það árið 1982 og sáust tveir myrkvanna frá Reykjavík, en næst gerist það árið 2485.

Myrkvinn 28. október er sá síðari á árinu 2004 (sá fyrri var 4. maí) og sá fjórði á 17 mánuðum. Næsti almyrkvi á tungli sem sést frá Íslandi verður ekki fyrr en eftir tvö og hálft ár eða 3. mars 2007.

Við skulum því vona að veðrið verði gott á fimmtudaginn.

Nánari umfjöllun um tunglmyrkva er að finna á Stjörnufræðivefnum <a href="http://www.stjornuskodun.is“ target=”_blank">www.stjornuskodun.is</a> undir „Sólkerfið“.