Area 51 Þessari spurningu má svara bæði játandi og neitandi. Enginn vafi leikur á að staðurinn sem sumir kalla Area 51 er til. Nafnið er þá haft um herstöðina við Groom Dry Lake í Nevada-ríki eða hluta hennar. Þar er óviðkomandi bannaður aðgangur svo sem löngum hefur tíðkast í herstöðvum. Sumir telja jafnvel að þar vinni herinn að þeim málum sem hann vill hafa mesta leynd um, þar á meðal þróun nýrrar hernaðartækni, svo sem flugvéla. Samkvæmt eðli máls er ekki þess að vænta að slíkt verði upplýst opinberlega.

Þeir sem harðast ganga fram í trú sinni á fljúgandi furðuhluti (FFH eða UFO - Unidentified Flying Object - á ensku) fullyrða að geimverur hafi brotlent á þessu svæði og að bandaríska ríkisstjórnin reyni að hamla útbreiðslu þekkingar um þessar verur og tækin sem fórust með þeim. Þeim þykir leyndin yfir stöðinni grunsamleg og spenna hefur magnast kringum svæðið. Áhugamenn ferðast þangað langt að til að taka myndir með góðum aðdráttarlinsum, í von um að sjá loks sönnunina um tilvist geimveranna. Áhugi þessa fólks minnkar ekki við það að sjá furðulegar vélar fljúga til og frá herstöðinni.

Bandaríski herinn viðurkennir ekki að herstöð með nafninu Area 51 sé til, enda er þetta nafn frá leikmönnum komið. Tortryggni hefur hins vegar ekki minnkað við það að nokkrir fyrrum starfsmenn hafa lögsótt bandaríska ríkið fyrir hættulega mengunarstarfsemi.

Nálægt meintu Area 51 í Nevada eyðimörkinni eru seldir minjagripir, ljósmyndir og annað sem þeir sem trúa að fljúgandi furðuhluti og yfirhylmingu ríkisins sækjast eftir. Kvikmyndir og sjónvarpsmyndir hafa einnig ýtt undir áhuga á svæðinu. “Roswell” er þekkt kvikmynd meðal geimveruáhugamanna. Hún fjallar um hátt settan hermann sem sver að hann hafi orðið vitni að brotlendingu fljúgandi furðuhlutar á svæði 51 og að reynt hafi verið að hylma yfir sannleikann með því að segja veðurloftbelg hafa hrapað.

Í kvikmyndinni Independence Day kom Area 51 við sögu – yfirhylming ríkisins á geimferju gestanna. Þetta var vinsæl kvikmynd og gerði flesta kunnuga hugtakinu Area 51. Þetta svæði kemur einnig mikið við sögu í sjónvarpsþáttunum X-Files, en aðalhetjurnar í þeim vita ekki hver sannleikurinn er í því máli.

Framleiddur hefur verið tölvuskotleikur sem heitir Area 51 og hefur hann lengi verið vinsæll í spilasölum. Einnig hefur Area 51 verið bætt inn í marga PC-tölvuleiki. Area 51 laðar ferðamenn til Nevada-eyðimerkurinnar sem fáir myndu heimsækja án góðrar ástæðu. Sumir segja Area 51 sé spennandi nútíma goðsögn sem spinnur út frá sér margar sögur sem gleðja. – Markaðsgildið virðist ráða meiru en sannleiksgildið í umræðum um Area 51. Það kemur sér sjálfsagt vel fyrir viðskiptalífið í Nevada-ríki.