Cassini-geimfarið heimsækir Satúrnus Þann 1. júlí komst Cassini-geimfarið á sporbaug umhverfis reikistjörnuna Satúrnus. Það er þó aðeins einn áfangi af mörgum í einum metnaðarfyllsta geimkönnunarleiðangurinn sem lagt hefur verið upp í. Kostnaðurinn við ferðalag Cassini er þegar orðinn sá hæsti sem um getur við ferðalög til annarra reikistjarna.

Geimfarinu var skotið á loft 1997 og er ætlað að safna upplýsingum um ótal fyrirbæri sem tengjast Satúrnusi og tunglum hans. Reikistjarnan hefur talsvert verið rannsökuð áður, til að mynda af Pioneer I og Voyager geimförunum sem flugu framhjá henni fyrir u.þ.b. tveimur áratugum. Hins vegar hefur ekkert geimfar verið sent á sporbaug umhverfis reikistjörnuna áður og nú þegar hafa birst niðurstöður um uppruna tunglsins Föbe (Phoebe) sem ekki hefði verið hægt að komast að með öðru móti.

Geimfarið er tvískipt, þ.e. móðurfarið nefnist Cassini og lítið könnunarfar sem nefnist Huygens. Móðurfarið er 6,7 metra hátt og 4 metra breitt og vegur um 5 tonn en Huygens-kanninn er aðeins um 300 kílógrömm að þyngd. Ætlunin er að hann skilji við móðurfarið á jóladag 2005 og svífi á þremur vikum í átt að Títani, stærsta tungli Satúrnusar. Það er eina tunglið í sólkerfinu sem hefur lofthjúp í líkingu við gufuhvolf jarðar og það sem meira er, þá er þar að finna lífræn efnasambönd eins og metan. Vísindamenn bíða spenntir eftir því þegar Huygens-kanninn fer inn í lofthjúp Títans og vona að hann geti sent frá sér merki eftir að hann lendir á yfirborðinu á um 5-6 metra hraða á sekúndu.

Hægt er að fylgjast með ferðalagi Cassini-Huygens á vefsetrum evrópsku og bandarísku geimferðastofnananna. Einnig er hægt að fylgjast með framgangi leiðangursins á íslenska <a href="http://www.stjornuskodun.is">Stjörnufræðivefnum </a> en þar hefur verið sett upp sérstakt vefsvæði sem er tileinkað Cassini.