Einkavæðum Mars Nýverið las ég ansi góðan pistil eftir Ron Pisaturo um Mars og framtíð geimkönnunar. Pistillinn var fyrst fluttur í Boulder, Colorado 14. ágúst 1999 sem ávarp til Mars Society (http://www.marssociety.org) og birtist í Intellectual Activist í september það sama ár.

Hugmyndina á Harry Binswanger, heimspekingur, en hugmyndin er sú að ríkisstjórn Bandaríkjanna sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Fyrsti maðurinn sem lendir á Mars, býr þar í eitt ár og kemur
lifandi til baka fær rétt til að eiga plánetuna Mars í heilu
lagi. Þessi eignarréttur verði styrktur fyllilega af
Bandarísku alríkisstjórninni.

Það sem kæmi til með að gerast væri stórkostlegt. Annar hver kapítalisti í gróðaleit og hver einasti áhugamaður um geimrannsóknir færu á fullt að safna fjárfestingum til að koma sér til plánetunnar Mars.

En hvers vegna? Er Mars einhvers virði? Ekki eins og er. Sem stendur er plánetan Mars aðeins ryðgaður efnisklumpur í óravíddum geimsins, hnöttur sem við vitum sáralítið um. En um leið og loforð um eignarhald er komið þá verður klumpurinn einhvers virði. Hvert skref sem tekið er í átt að búsetu á Mars og hvert bæti af upplýsingum um plánetuna eykur verðgildi hennar. Loforð sem þetta myndi gera að raunveruleika eftirspurn eftir upplýsingum um mars og eftir tækni til að komast þangað. Allt þetta myndi auka verulega á verðmæti plánetunnar.

NASA skýrði frá því nýlega að það myndi kosta stofnunina yfir 100 milljarða Bandaríkjadala að senda menn til Mars. Það eru gífurlegir fjármunir. En hvað myndu þeir gera þar? Litast um? Skjóta á loft rakettum og þrykkja nokkrar golfkúlur 900 metrana? Hvað svo? Ekki neitt. Heim á leið í partý og leggja á ráðin um aðra ferð sem kostar tvöfalt meira. NASA er ekki fyrirtæki og hefur enga von né vilja að heimta arð af þessum milljörðum.

Hvernig er hægt að réttlæta að eyða hundrað milljörðum dollara í að senda menn til Mars þegar nóg er um hluti að eyða í hér á Jörð? Því er auðvelt að svara. Fyrir þína hundrað milljarða færðu að eiga plánetuna. Sá sem kæmist þangað hefði beinna hagsmuna að gæta og myndi hagnast á því beint. Hann gæti einnig kosið að nýta Mars til einhvers, til dæmis að setja upp námur, stöðvar, ferðamannaþjónustu, nú eða bara að selja fasteignir. Hver myndi ekki vilja kaupa nokkur hundruð hektara landspildu með útsýni til Olympus Mons á kannski 10 þúsund kall? Hefur einhver efasemdir um að sú fasteign myndi vaxa í verði?

Og einmitt þannig myndi allt mannkyn hagnast. Hver sem er gæti keypt og selt svæði á Mars, sent þangað menn og búnað, hafið rannsóknir eða iðnað. Annað eins myndi ekki hafa sést síðan Evrópubúar uppgötvuðu Ameríku. Mars er nýi heimurinn nú eins og vesturheimur var þá. Við þurfum að koma plánetunni í eignarhald (svo og tunglum bæði Jarðarinnar og Mars) svo hægt sé að nálgast hana á siðmenntaðan hátt. Að öðrum kosti er næsta víst að styrjaldir verði háðar um það hver skuli ákveða örlög plánetunnar Mars.