Ég ætla að fjalla almennt um Mars og tilgátu mína um möguleikann á því að líf hafi eitt sinn þrifist á Mars.

Mars er 4,6 milljarða ára gömul og hefur ekki ringt þar í 3 milljarða ára. Mars er fjórða reikistjarnan frá sólu, og er næst á eftir jörðinni. Mars er rauðleit á litinn vegna mikils magns af járnríku bergi og ryki á yfirborði plánetunar. Járn ryðgar og verður rautt þegar það kemst í snertingu við súrefni og er það skýringin á rauða litnum. Miklir sandstormar geysa á Mars og geta þeir staðið yfir mánuðum saman.
Lofthjúpur Mars er að mestu úr koltvísýringi (95%) en einnig er í honum vatnsgufa. Stundum er skýjað á Mars og á veturna snjóar nærri heimskautunum, aðallega CO2-snjó. Hitastig fer niður fyrir -150 °C á heimskautasvæðunum að vetrarlagi, en á sumrin getur það á stöku stað farið upp fyrir +20°C.
Þótt vatn sé ekki í fljótandi ástandi á yfirborði Mars er hugsanlegt að það leynist djúpt í jarðvegi, milli berglaga eða í stöðuvötnum undir heimskautajöklunum. Merk uppgötvun, sem gerð var nýlega bendir einmitt sterklega til að vatn hafi frekar nýlega seytlað út á milli berglaga í hlíðum gíga og stórra gilja á Mars og myndað litla farvegi og giljadrög. Farvegir þessir bera lítil sem engin merki veðrunar og eru því taldir myndaðir mjög nýlega, jafnvel fyrir fáeinum árum eða áratugum þó það sé ekki víst. Uppruna þessa vatns er að leita í sífrera sem talinn er mjög útbreiddur undir yfirborði Mars og nær líklega niður á nokkurra kílómetra dýpi. Vísindamenn telja, að jarðhiti geti á stöku stað náð að bræða ís og bræðsluvatnið leiti síðan út á milli berglaga. Þá verður að nefna að hitinn þarf ekki að komast upp í 0°C til þess að bráðnun geti átt sér stað, því að bræðslumark ís getur lækkað um tugi gráða ef hann er blandaður söltum. Ef sólar nýtur ekki, frýs vatnið um leið og það kemst í snertingu við andrúmsloftið og myndar íshaft í klettaveggjum. Vatn streymir þó áfram að haftinu innan frá og þrýstir sífellt meira á og þar kemur loks að haftið lætur undan og mikið magn vatns brýst fram á stuttum tíma og nær að mynda dálítinn farveg áður en það frýs eða gufar upp.
Mars fylgja tunglin Phobos og Deimos sem eru aðeins 11 og 16 km í þvermál og er Phobos stærra. Phobos er aðeins 5920 km frá yfirborði Mars og tekur 7 tíma og 39 mínútur að fara einn hring um Mars á meðan Deimos er 20000 km frá Mars og er 30 tíma og 18 mínútur að fara einn hring.
Öxulhalli Mars er 24°, svo þar eru árstíðir líkt og á jörðu. Marssólarhringurinn er 24 tímar og 40 mínútur en árið er 687 dagar. Meðalfjarlægð Mars frá sólu eru 219 milljónir km. Þvermálið er 6515 km og er meðalhiti við yfirborð -23° C en hiti hefur mælst undir -120° C.
Mars hefur þunnan lofthjúp. Landslag á Mars er veðrað, þar eru loftsteinagígar sem um hefur runnið vatn , árgljúfur sem eru mun stærri en gljúfur á jörðinni, eldfjöll og er það stærsta Olympus Mons sem er á stærð við Ísland og 27 km á hæð.
Þegar rætt er um hvað þurfi til að líf geti myndast er vatn í fljótandi formi aðalatriði. Eina plánetan í sólkerfinu innan svokallaðs lífbeltis, það er ákveðin fjarlægð frá sólu sem bíður upp á hitastig þar sem vatn getur verið á fljótandi formi, er jörðin en bæði Mars og Venus eru á jöðrum þess. En nú höfum við séð að vatn hefur verið fljótandi á yfirborði Mars og enn eru jökulhettur á pólum hennar.
Sólin er 4,6 milljarða ára gömul og er líftími hennar hálfnaður. Hún er úr 70% vetni, 28% helíum og er restin blanda úr öðrum efnum.
Ég tel að í byrjun hafi sólin verið stærri, því eldsneyti hennar hafi verið meira en eftir því sem tíminn leið hafi hún minnkað og geri það enn vegna bruna eldsneytis svo að hún falli hægt og rólega saman, og /eða að hún hafi verið heitari í árdaga.
Hafi svo verið hefur Mars getað verið innan lífbeltisins en ekki er víst að jörðin hafi verið þar á þeim tíma. Þá hefur vatnið á Mars verið í fljótandi formi. Áður fyrr var andrúmsloftið á Mars þéttara en reikistjarnan tapaði megninu af því vegna sólarvinda sem valda því að um 50 þúsund tonn af andrúmslofti hverfa árlega úr lofthjúpnum. Þá var Mars mun lífvænlegri, heitari, með vatni í vökvaformi, og lofttegundum. Líf gæti vel hafa verið að þróast þar og er ekki útilokað að merki um það muni finnast seinna þó að enn hafi það ekki gerst.
Ég tel að Mars hafi verið komin út úr lífbeltinu fyrir um 3 milljörðum ára en þá hætti að rigna þar og hefur vatnið frosið vegna kulda. Aðeins fyrr hefur jörðin verið að færast inn í lífbeltið og eru leifar örvera með vissu til í jarðlögum sem eru 3,1 milljarða ára gömul og hafa einnig fundist merki um líf sem eru ekki alveg örugg frá fyrir 3,8 milljörðum ára. Þá sjáum við að í takmarkaðan tíma hafa báðar reikistjörnurnar verið lífvænlegar og hefðu ekki þessar hræðilegu breytingar orðið á sólinni hefði líf allt eins getað þróast á báðum reikistjörnunum í einu og er gaman að ímynda sér hvernig líf hefði þróast á Mars en ekki væri ólíklegt að það hefði verið þróaðra en á jörðu miðað við að það hefði að öllum líkindum byrjað að þróast fyrr en á jörðinni.

Var líf á Mars eða er það jafnvel enn neðanjarðar? Hver veit, aðeins tíminn og meiri tækniþróun getur leitt það í ljós. Hér er ég búin að fjalla um nútímaaðstæður á Mars og hvernig aðstæður geta hafa verið fyrir milljörðum ára.
Hvað þýðir það fyrir jarðarbúa ef sólin er í raun og veru að minnka og /eða kólna?