Hér er grein sem birtist í miðvikudagsblaði DV þann 2. ágúst 2000 og birtist hér orðrétt;

Húsið Borgartún 25-27, sem gerði Guðna Helgason rafvirkjameistara að skattakóngi Reykjavíkur, er gamalt draugabæli. Húsið gekk lengi undir nafninu Defensor en hafði ekkert götunúmer. Þar hafði Byggingarfélagið Brú aðsetur á sjötta áratuginum. Félagið stóð fyrir flestum meiri háttar byggingarframkvæmdum í borginni og reisti meðal annars Borgarspítalann.
Í miðbyggingu Defensors, sem mun vera elsta byggingin í þessari þyrpingu húsa, hreiðraði breski herinn um sig á stríðsárunum. Sagan segir að á neðri hæð hússins hafi ungur breskur hermaður svipt sig lífi. Hann hengdi sig í loftbitunum sem þar eru. Altalað var að hermaðurinn gengi aftur í Defensor og sæist oft á reiki í húsnæðinu sem var einn salur og hann allstór.
Jón Birgir Pétursson blaðamaður segir að þegar hann var að vinna fyrir Brú hafi verið geymt timbur sem þurfti að þurrka til smíða innanhúss í húsinu.
,,Þarna var ærið skuggsýnt og saggasamt. Mikið var rætt um drauginn og verkamennirnir trúðu sögunum af breska hermanninum í hvívetna. Ég man eftir einu tilviki þegar ungur strákur kom hlaupandi út í sólskinið, náfölur í framan. Hann sagðist hafa séð drauginn, ungann mann í hermannaklæðum.
Stráknum var ekki þokað inn í húsið eftir þetta. Fleiri töldu sig sjá manninn en óttuðust hann ekki, enda gerði hann engar skráveifur svo vitað sé´´ . - Kip