Í kjölfar hins hræðilega geimferjuslyss í gær, þegar Columbia geimskutlan liðaðist í sundur, hafa vaknað upp spurningar um framtíð ISS (International Space Station).

Ljóst er að þetta slys mun hafa miklar afleiðingar í för með sér fyrir uppbyggingu þessara geimstöðvar, en geimskutlurnar Endevour, Atlantis og Discovery hafa verið kyrrsettar, í óákveðinn tíma.

En þessar fjórar geimskutlur, nú þrjár, hafa verið burðarásinn í uppbyggingu á geimstöðinni. Þær geta flutt um 30 tonn af búnaði og vistum á meðan rússneska geimflaugarnar geta flutt um 2 tonn.

Aðeins um 20 ferðir hafa til þessa verið farnar af um 40 ferðum sem áætlað er að þurfi til að ljúka við geimstöðina árið 2006. Geimstöðin er nú um 130 tonn að þyngd en fullbúin á hún að verða um 450 tonn.

Til stóð að setja kraft í bygginguna á þessu ári. Fara átti sex ferðir með geimferjum með nýja hluta í stöðina. 36 geimfarar áttu að fara til stöðvarinnar í fimm geimferjuferðum og sex í Sojusgeimskipum. Nú er ljóst að ekki verður af þessu.


Einnig vakna upp spurningar varðandi framtíð geimferjanna, en þær eru orðnar mjög gamlar og teljar margir að þær séu komnar langt yfir líftíma sinn.

Verkfræðingur sem vann hjá NASA, en er farinn nú á eftirlaun, hefur ítrekað reynt að fá NASA til að stöðva notkun á geimferjunum, en þessi verkfræðingur hefur séð mjög mörg merki þess að það hafi stefnt í annað geimferjuslys. Ekki var tekið mark á honum með fyrrgreindum afleiðingum.

Nú er spurning hvort NASA muni hætta við þátttöku í uppbyggingu á alþjóðlegu geimstöðinni, þegar ljóst er að þeir geta ekki tekið þátt í henni. En ef það mun gerast þá leyfi ég mér að fullyrða að alþjóðlega geimstöðin mun líða undir lok. Rússar né aðrar þjóðir hafa ekki burði til að halda áfram uppbyggingunni.


En tímasetning þessa slyss vekur upp spurningar, aðallega hjá samsæriskenningarmönnum.

Áður en þetta geimferjuslys varð þá hefur NASA, vísindamenn og stjórnmálamenn kvartað yfir því hve mikið þetta geimstöðvarævintýri kosti, og að ekki sé hægt að gera neina vísindlegar tilraunir þar og að það setji í raun hömlur á aðra starfssemi NASA. Ef NASA myndi hætta við ISS þá myndi það leysa upp gífurlegt fjármagn hjá þeim og leyfa þeim að fara sínar eigin leiðir.

Einnig hafa BNA menn verið ítrekað gagnrýndir á alþjóðavettvangi að undanförnu vegna utanríkisstefnu sína. Nú hafa þeim borist fjölmargar samúðarkveðjur frá ýmsum löndum, þ.m.t. Íslandi.

Þetta er a.m.k. efni í ýmsar samsæriskenningar. En ég hef þó enga trú á því að þetta hafi verið neitt annað en slys.