Eftirfarandi er grein sem ég tók af Visir.is

Fegrunaraðgerðir á dýrum bannaðar
Umhverfisráðuneytið hefur sett reglugerð sem bannar sársaukafullar aðgerðir á hundum og köttum sem eru framkvæmdar til að fegra þá.

,,Það líður örugglega öllum dýralæknum betur eftir að þessi reglugerð var sett“, segir Helga Finnsdóttir dýralæknir um reglugerð umhverfisráðuneytisins sem verður birt í dag en þar er lagt blátt bann við margvíslegum aðgerðum á hundum og köttum ef ekki liggja læknisfræðilegar ástæður að baki þeim. Með reglugerðinni er m.a. lagt bann við skott- og eyrnastífingum hunda og brottnámi raddbanda hunda og katta.

,,Eyrnastífing er ákaflega sársaukafull og í raun andstyggileg aðgerð,” segir Helga. ,,Eyrun eru lögð í pressu og helmingur þeirra saxaður af. Eftir það þarf að binda eyrun upp í einhverjar vikur til þess að þau grói upp. Ég held að fólk geti rétt ímyndað sér hversu sársaukafullt þetta er fyrir unga hvolpa. Það hefur líka komið fyrir að hundar séu fluttir inn nýeyrnastífðir og hefur þá verið farið fram á að það sé skipt um umbúðir í einangrunarstöðinni og hlúð að þeim þar.“ Helga segir að mörg hundakyn hafi verið skottstífð hérlendis á árum áður, stundum vegna þess að með því var brugðist við sárum sem erfitt þótti að lækna. Hins vegar hafi þetta einnig verið tískufyrirbrigði. ,,Maður hefur séð oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og það síðast í dag að hundur hefur verið skottstífður og það þarf að laga það. Þá hefur upphaflega skottstífingin misheppnast og hundurinn þarf að ganga í gegnum þetta aftur. Aðgerðin er líka miklu sársaukafyllri fyrir fullorðinn hund en ungan hvolp.”

Helga segir að nokkuð hafi verið um það í Bandaríkjunum að fólk hafi látið fjarlægja raddbönd hunda til að koma í veg fyrir að þeir geltu. Eins er nokkuð um að fólk fari fram á að klær og sporar séu fjarlægð svo dýrin rispi ekki rúður og húsgögn. Helga segist stundum hafa verið spurð út í hvort ekki sé hægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir gelt. Þó telur hún meira um að fólk spyrji af rælni heldur en að það vilji í raun gera eitthvað í málinu. ,,Svo er auðvitað spurning þegar fólk biður um að láta fjarlægja raddbönd og spora hvort fólk eigi ekki frekar að fá sér postulínshunda en alvöruhunda."


Fyrir mitt leyti þá er ég gífurlega ánægður yfir því að fólki sé nú bannað að misþyrma gæludýrum í nafni tískunnar (sbr. skott/eyrnastýfingar) Doberman hundar er held ég ágætt dæmi um þessar skottstýfingar sem ég vona að sjáist ekki í framtíðinni hér á landi, þó þetta haldi áfram erlendis.


Zorglú
—–