Dísarpáfagaukar Nymphicus hollandicus

Dísarpáfargaukar teljast til lítilla páfagauka. Þeir eiga enga náskylda ættingja meðal páfagauka (engir aðrir fuglar eru undir nymphicus) en kakadúinn er fjarskyldur ættingi.

Venjulegir (normal grey) dísarpáfagaukar eru að verða sjaldgjæf sjón vegna nýrra litarafbrigða. Grái karlfuglinn er litskrúðugari, hann hefur gult andlit og gulan kamb. Kvenfuglinn hefur grátt andlit og
þverrendur á stéli og neðan á líkamanum.

Dísur hafa fjaðurskipti einu sinni á ári. Á fyrsta ári líta karldýrin eins út og kvendýr og því er erfitt að kyngreina þau. Þegar þau eru u.þ.b. 8 mánaða byrja þau að hafa fjaðurskipti og þá kemur í ljós hvort um karl- eða kvenfugl er að ræða.

Á 20. öld voru mörg litaafbrigði ræktuð. Hjá sumum þessara afbrigða er enginn útlitsmunur á kynjunum. Margir eigendur hafa orðið fyrir því að hann Max fari allt í einu að unga út eggjum.

Tamdar dísur geta verið yndisleg gæludýr. Þau hafa sinn persónuleika og þau geta tengst eiganda sínum sterkum böndum. Þær lifa í u.þ.b. 20 ár með góðri umönnun og góðu fæði. Ekki er gott að fuglarinir lifi eingöngu á fræjum heldur líka á ýmis konar ávöxtum og grænmeti.
Þó er ekki mælt með avókadó, kaffíni eða súkkulaði.

Dísur eru félagslynd dýr og auðvelt er að temja ungan fugl. Besti aldurinn er ca. 2 mánaða en ekki er auðvelt að temja fugla eftir að þeir eru eldri en ársgamlir (þumalputtaregla). Í sumum löndum tíðkast það að ræktendur taka unga úr hreiðri og handfóðra þá. Þeir fuglar sem aldir eru þannig upp verða mjög háðir mönnum og þekkja ekki annað en menn. Það er þó ekkert skilyrði að dísarpáfagaukar séu handfóðraðir til að þeir verði MJÖG gæfir.

Eins og fyrir flestar dýrategundir er talsverður munur hegðun kynjana. Kvendýr eru oftast gæfari en karldýr og meira fyrir að láta klóra sér. Það heyrist oftast meira í karldýrum og þeir eru duglegri við að syngja og tala, já tala! Ég segi oftast þar sem persónuleiki þeirra spilar stórt hlutverk líka.

Tamdir fuglar ættu að vera sem mest með eiganda sínum. Það þarf að eyða a.m.k. 2 tímum á dag með þeim og meira ef fuglinn er einn. Gott er að láta þá sitja á öxlinni á meðan maður er að stússast og útbúa fyrir þá leikhorn, jafnvel kaupa það. Þeir þurfa úrval leikfanga og
best er að skipta þeim út eða breyta staðsetningu þeirra öðru hvoru. Það kemur bæði í veg fyrir leiða og venur þá á breytingar en fuglar geta orðið mjög vanafastir.

Til þess að dísur fái að njóta sín sem gæludýr er nauðsynlegt að klippa flugfjaðrirnar. Þá er minni líkur á að þær fljúgi í burtu ásamt því að þær fá meira frelsi til að dunda sér. Ef maður er með nýjan fugl þá er líka auðveldara að temja fugl ef hann er vængstýfður. Þetta er alls ekki grimmúðlegt. Það er í raun mun verra ef fuglinn sleppur því hann á enga möguleika í náttúrunni, einnig er mjög slæmt ef hann brennist við að lenda t.d. á heitri hellu. Vissulega er frelsi fuglanna skert en það má líkja þessu við að hafa hund í ól. Hans frelsi er skert en hann fær að fara meira um fyrir vikið!