Enginn veit með vissu hversu margar tegundir dýra og jurta lifa nú að jörðinni. Sumir segja tvær milljónir,sumir telja að tegundirnar séu tíu milljónir eða jafnvel fleiri. En eitt vitum við og það er að margar þúsundir-kannski hundruð þúsunda-þessara tegunda eru í alvarlegri útrýmingarhættu, yfir þeim vofir að verða máðar burt af yfirborði jarðar.

Raunar er víst að margar tegundir hverfa jafnvel áður en okkur er kunnugt um tilveru þeirra. Kannski í einhverju kyrrlátu skoti í regnskógum hitabeltisins eða í djúpum ókannaðs hafsvæðis. Þeim verður jafnvel aldrei gefið nafn áður en þær hverfa af völdum röskunar á vistsvæðum eða annars sem spillir lífsskilyrðunum. Meðal þess sem við vitum að er í hættu er margt svo sjaldgæft að einungis fáir einstaklingar eru eftir.

Aðeins lifa enn tveir dökkir strandspörvar og þeir eru geymdir í dýragarði í Flórída. Í þúsunda km fjarlægð þaðan. Í Afríku er aðeins tylft hvítra nashyrninga sem enn þrauka ásamt fílum, hlébörðum og öllum hinum dýrategundunum sem berjast í bökkum í þessari fögru heimsálfu. Þá hefur Tasmaníuúlfurinn, undarlegt dýr sem svipar til hunds og er skylt kengúru, og lifað hefur í Tasmaníu, ekki sést síðan fyrir u.þ.b. tveimur árum. Því miður er líkt á komið með öðrum dýrum og jurtum í flestöllum löndum heims. Ekki þarf nema líta í hin mörgu bindi af The Red Data Books sem er viðurkennd fróðleiksuppspretta um þær dýrategundir sem eru í útrýmingarhættu til að fá nokkra hugmynd um hversu alvarlegt ástandið er.

Jafnvel algengar tegundir gætu verið í hættu. T.d. var flökkudúfan einu sinni svo algeng í N-Ameríku að fjöldi hennar var talinn nema um 40% af öllum fuglastofni álfunnar. Gríðarstórir hópar, tugir km á lengd, og nokkurra km breiðir, voru algeng sjón snemma á 19. öld. Vísindamenn telja jafnvel að flökkudúfan hafi verið algengasti fuglinn sem nokkru sinni hefur verið uppi á jörðinni. Þó tókst manninum að útrýma henni á aðeins 50 árum. Síðustu flökkudúfuna sem vitað er að hafi sést villt, skaut ungur drengur þann 24. mars 1900. Þann 1. september 1914 dó síðasta dúfan þessarar tegundar í búri í dýragarðinum í Cincinnati.

Fólk er að eyðileggja kjörlendi, hin eðlilegu vistsvæði dýra og jurta með miklu örlagaríkari hraða en sem svarar nýtingu hinna einstöku tegunda. Án vistsvæða geta hvorki plöntur né dýr lifað. Samt höldum við áfram að höggva regnskóga hitabeltisins, breyta frjóum s´æðum í eyðimerkur, þurrka mikilvæg votlendi og eyðileggja önnur vistsvæði með fullkomnu sinnuleysi um framtíðina. Algengum tegundum og öðrum sem þegar eru í hættu, verður útrýmt ef eyðileggingunni verður haldið áfram með sama hraða og nú viðgengst.