Flest allir dýraeigendur þekkja það hversu hrædd dýrin þeirra verða á gamlársdag og aðra daga sem mikið er sprengt af flugeldum.
Ég fann þess grein inni á dagfinnur.is og langaði að deila henni með ykkur.
Engin tvö dýr eru þó eins og mismunandi er hvernig þeim líður best en þetta eru góðar leiðbeiningar fyrir byrjendur sem ekki vita hvernig dýrið þeirra mun bregðast við.

Hundar
Á gamlársdag, gamlárskvöld, nýársdagskvöld og þrettándann er æskilegt að halda hundum inni við. Gott er að útbúa fyrir þá aðstöðu, skjól í einhverju rými sem þeir þekkja og finna til öryggistilfinningar. Hafið hjá þeim dót sem þeir þekkja. Gott er að útbúa fyrir þá skjól undir einhverju traustu, t.d. borði þar sem þeir geta haft dýnuna sýna eða teppið sitt. Gætið þess að það sé ekkert í rýminu sem hundurinn getur slasað sig á og skemmt. Ef þú átt búr þar sem hundurinn er reglulega er gott að hafa hann í því.

Gott er að draga fyrir glugga á gamlárskvöld og hafa opið fyrir útvarp þannig að hvellir og ljósagangur að utan hafi minni áhrif.

Einungis í mjög slæmum tilfellum er ástæða til að gefa hundinum róandi lyf. Ef eigandi telur að hundurinn þurfi róandi lyf þarf að leita tímanlega til dýralæknis og ráðfærið sig við hann.

Hræðsla við flugelda getur aukist með árunum, en það er vel hægt að venja hunda við hljóðið af flugeldum, til dæmis með því að spila hljóðupptöku af sprengingum og hækka styrkinn smám saman. Þetta verður þó að athuga tímanlega. Sumir hundar leita í fang eigandans þegar þeir verða hræddir, en aðrir vilja vera einir. Ef hundurinn leitar sjálfur skjóls er best að leyfa honum að vera í friði og ekki reyna að draga hann fram.

Ef hundurinn virðist ekki mjög hræddur má fara með hann út fyrir, en bara í taumi, þar sem hann getur orðið hræddur og hlaupið frá eigandanum.

Kettir
Á gamlársdag, gamlárskvöld, nýarsdagskvöld og þrettándann er æskilegt að halda köttum inni við. Gott er að útbúa fyrir þá aðstöðu, skjól í einhverju rými sem þeir þekkja og finna til öryggistilfinningar. Kettir sækja gjarnan í dimm skot, til dæmis undir rúmi, inni í skáp eða þessháttar stöðum. Það er mikilvægt að passa að kötturinn sé inni allann daginn á gamlársdag, þar sem margir virðast byrja að sprengja strax eftir morgunmatinn. Gott er að draga fyrir glugga í herberginu þar sem kötturinn er og hafa opið fyrir útvarp þannig að hvellir og ljósagangur að utan hafi minni áhrif.

Ekki er ráðlegt að gefa köttum róandi lyf um áramót, nema í undantekningartilfellum. Til að fá róandi lyf fyrir köttinn þarf að leita tímanlega til dýralæknis.

Hestar
Best er að hafa hestana inni í hesthúsum á gamlársdag og á þrettándanum sem mest, ekki lausa úti í gerðum og alls ekki eftirlitslausa. Gott er að líta eftir hrossunum eftir miðnætti þegar meti atgangurinn hefur gengið er yfirstaðinn.

Gott er að byrgja rúður í hesthúsum á gamlárskvöld og hafa opið fyrir útvarp þannig að hvellir og ljósagangur að utan hafi minni áhrif.

Hestamenn eru hvattir til að hafa sérstakan vara á þegar farið er í útreiðatúra á þessum árstíma. Þeir sem eiga ekki hesta eða gæludýr átta sig margir ekki á því að hvellir og ljós geta fælt skepnur.

Bændum og þeim sem eiga hross eða stóð í nágrenni við þéttbýli eða sumarhús er bent á að gera ráðstafanir og smala hrossum heim eða hafa eftirlit með þeim á meðan mestu lætin ganga yfir.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Vinnum að því að dýrin okkar njóti tímans líka!

http://www.dagfinnur.is/?c=webpage&id=198&lid=123&option=links
Just ask yourself: WWCD!