Andamamma kallar á lögreglu Þegar hópur andarunga datt niður í göturæsi í Vancouver í Kanada gerði andamóðirin þar sama og margar aðrar mæður hefðu gert í hennar sporum: Hún kallaði á lögregluna.
Lögreglumaðurinn Ray Peterson viðurkenndi, að hann hefði í fyrstu ekki skilið hvað öndinni gekk til en hún kom til hans, þar sem hann var á eftirlitsgöngu, og beit í buxnaskálmina.
“Mér fannst þetta hálf kjánalegt og ýtti henni frá mér,” sagði Peterson í samtali við blaðið Vancouver Sun.
En andamóðirin gafst ekki upp og beit aftur í buxur lögreglumannsins. Síðan kjagaði hún að nálægri niðurfallsrist, settist þar og beið þess að Peterson athugaði málið.
“Ég fór þangað sem öndin lá og kíkti niður um ristina og sá átta andarunga í vatninu fyrir neðan,” sagði Peterson sem kallaði til liðsauka. Nota þurfti kranabíl til að lyfta ristinni upp svo hægt væri að bjarga ungunum. Að björgunaraðgerðunum loknum gengu endurnar í halarófu í áttina að nálægri tjörn.
Just ask yourself: WWCD!