Aumingja Beatrice Ég á litla sæta hamstrastelpu sem heitir Beatrice. Hún er rúmlega 3ja mánaða og rosalegt krútt. Hún er ekki gæf og verður arfabrjáluð ef reynt er að taka hana upp, svo að ég sleppi því bara. Henni finnst gaman að fara aðeins út í garð í góðu veðri og borða gras. Hún hleypur mikið og þegar hún gerir það stoppar hún öðruhverju og kíkir út úr hjólinu, eins og hún sé að athuga hversu langt hún sé komin.
Henni finnst epli, gulrætur, gúrkur og appelsínur rosalega gott en jarðarber eru ekki ofarlega á óskalistanum.
En því miður á hún Beatrice ekki eftir að fá að njóta alls þess mikið lengur. Fyrir tæpum tveim vikum var hún eitthvað skrýtin í andlitinu svo að ég fór með hana til Dagfinns dýralæknis. Þar var greyið greind með lungnabólgu og var andlitið bólgið vegna þess. Bee fékk 3 sprautur og fúkkalyf til að taka heima. Svo líkaði henni bara alls ekki við fúkkalyfið, sem er víst mjög óvenjulegt samkvæmt Dagfinni. Ég reyndi að plata hana með því að setja það á grænmeti, en það gekk ekki, setja það í vatnsflösku, en það virkaði ekki heldur. Og núna er aumingja Beatrice svo lasin og með mikinn hósta að hún fer varla úr holunni sinni, andlitið er skakkt af bólgu og hún hoppar upp og niður af hósta, sem væri reyndar mjög krúttlegur, ef væru aðra kringumstæður.
Núna vona ég bara að hún láti sér batna, og ef hún gerir það ekki, þá það sem þarf svo henni hætti að líða svona illa.
“Against boredom, the gods themselves struggle in vain.” — Nietzsche