Ég fór í göngutúr í Elliðaárdalnum áðan(annan í páskum)og gekk þar fram á hvíta kanínu sem var að reyna að finna sér eitthvað æti í smá rjóðri. Hún var mjög gæf, greinilega gæludýr, og ég gat ekki hugsað mér að skilja hana eftir þarna svo ég tók hana með mér heim. Greyið var alveg glorhungruð og óhrein á snoppunni eftir að hafa verið að reyna að rífa upp eitthvað gras til að éta. Núna er hún í baðkarinu hjá mér með helling mat, vatn og handklæði til að liggja á. Málið er að ég get ekki haft hana, eins sæt og gæf og hún er. Ég var að vona að einhver dýravinur hér á Huga myndi hafa áhuga á að taka hana að sér. Ég vil aðeins láta hana til fólks sem hefur aðstöðu til að vera með hana eða vill koma sér upp aðstöðu, þ.e. búr o.þ.h.

Ég veit ekki hvernig stendur á því að hún var þarna ein á flakki í Elliðaárdalnum. Mig grunar að annað hvort hafi hún sloppið úr búri í grenndinni eða þá, sem er jafnvel líklegra, að einhver hafi losað sig við hana þarna í von um að hún myndi lifa það af. Mér finnst ótrúlegt að fólk skuli losa sig við dýrin sín á þennan hátt. Ef menn ætla að fá sér dýr á annað borð verða menn geta axlað þá ábyrgð að hugsa um dýrin, þau eru ekki leikföng sem menn henda bara þegar menn verða leiðir á þeim. Menn þurfa ekki að vera mjög klárir til að sjá að Elliðaárdalurinn er ekki ákjósanlegur staður fyrir kanínur þó þær geti kannski lifað þar af yfir sumartímann. Þær lifa tæpast af vetrarkulda eða varg á borð við minnk sem hefur sést þarna.

Ef þið hafi áhuga á að eignast sæta hvíta páskakanínu þá látið mig vita með tölvupósti á hvitakanina@hotmail.com