Flær á ketti

Er eitthvað hægt að gera til að koma í veg fyrir að fló fylgi ketti inn á heimili og hvernig lítur flóin út?

Á þessum árstíma vakna fuglaflær, eins og t.d. staraflær, til lífsins. Aðalhýsill er þá starinn og á honum lifir flóin og fjölgar sér. Flóin er um 3 mm að lengd og getur stokkið allt að 30 cm. Þegar fuglinn leitar sér að æti í görðum, geta flærnar dottið af fuglinum og til að leita sér lífsbjargar, hoppa þær á næsta, lifandi einstakling sem kemur framhjá. Það getur verið heimiliskötturinn, hundurinn eða fólk sem á leið um. Hoppi flóin á t.d. heimilisköttinn, berst hún auðvitað inn með honum. Sé kisi vanur að kúra sig þétt að eigandanum, eða sofa upp í, er auðvitað hætta á að flóin leiti sér að nýju fórnarlambi og flytji sig um set á þann sem heldur á, eða er í nánd við köttinn. Fólk er misnæmt fyrir skordýrabitum og sumir sleppa, en aðrir eru útbitnir. Sé um vandamál að ræða, er best að leita til dýralæknis um hjálp til úrbóta.


Breima læður! Inga Rut skrifaði og bað um upplýsingar.

Ég á tæplega fimm ára gamla læðu sem ég hef aldrei þurft að hafa neinar áhyggjur af. En um daginn hegðaði hún sér frekar undarlega. Hún virtist væla mikið utan í okkur, heimilisfólkinu og að okkur fannst þá breimaði hún. Hún virðist vera að eðlisfari mjög sjálfstæð og er ekki mikið fyrir það að liggja uppi í sófa hjá okkur, fyrr en núna undanfarið. Einhversstaðar höfðum við heyrt það að kettir sem fengju pilluna ættu ekki að breima, er það rétt? Læðan mín hefur fengið pilluna frá því að hún var kettlingur eða svo til. Annað sem að ég var að velta fyrir mér er það hvernig veit maður að kötturinn manns er með hita og lasinn?

Lýsingin á hegðun læðunnar þinnar bendir til að hún hafi verið að breima, þ.e. verið eðlunarfús. Það er rétt að kettir sem fá pilluna eiga ekki að breima (pillan á einmitt að hindra það!) en ef eitthvað út af bregður; pilla gleymist eða kisa kastar henni upp þá getur hún farið af stað. Þú ættir að íhuga að láta taka læðuna úr sambandi ef þú hefur ekki hugsað þér að láta hana eignast kettlinga. Þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af pillunni framar auk þess sem áhættan á júguræxlum verður minni, en slík áhætta fylgir notkun pillunnar.

Þú spyrð hver einkennin á hita og lasleika séu. Helstu einkennin sem þú yrði vör við eru þau að matarlystin minnkar auk þess sem kisa mundi vilja sofa meira. Feldurinn yrði auk þess mattur og trýnið jafnvel heitt. Og ef kisa er, eins og þú segir, sjálfstæð, þá mundi hún líklega fela sig til að fá að vera í friði.

Hundurinn minn fer mjög mikið úr hárum. Hvað er hægt að gera?



Eðlilegt er að hundar fara úr hárum, þ.e. missi hárin sem hafa losnað úr hársekkjunum. Því fylgir hvorki hárlausir blettir né kláði. Villtir hundar og úlfar fara stöðugt lítillega úr hárum en á vorin og haustin eykst hárlosið. Þessu er stjórnað af lengd dagsbirtunnar sem er breytileg árið um kring. Heimilishundar sem búa innandyra verða ekki þessa breytileika varir og “vita” þess vegna ekki hvenær þeir eiga að fara úr hárum. Því jafnast hárlosið út yfir árið. Í einstökum tilfellum getur mikið hárlos stafað af vítamínskorti, en það er sjaldgæft. Lífsnauðsynlegar fitusýrur geta minnkað hárlosið og til eru á markaðnum olíur eða “spray” sem hægt er að bæta út á matinn. Venjuleg matarolía verður oftar til þess að hundurinn fitnar en að feldurinn verði betri.