Ég hef átt í miklum vandræðum með hana Mjallhvíti mína (hvítur kanarífugl). Hún er búin að vera með alveg ógurlega frekjustæla við Nova minn og ræðst oft á hann, stundum alveg að tilefnislausu, og stundum ef hann er að borða mat eða nammi eða ávextina. Ég hef líka tekið eftir miklum breytingum hjá honum. Hann var vanur að vilja fljúga laus a.m.k. einu sinni á dag og vildi jafnframt daglegt bað í fuglabaðinu. En eftir að Mjallhvít kom, kemur nánast aldrei út lengur og fer sjaldan í bað. Eiginlega sakna ég gamla Nova, því mér fannst þetta svo skemmtilegt. Jæja, en svo um helgina fór ég að pæla, hvort það gæti hugsanlega verið að ég hefði kannski fengið Mjallhvíti “eggjafulla” úr dýrabúðinni, og hún væri kannski svona pirruð af því að það væri ekkert hreiður (get rétt ýmindað mér skapið í mér ef ég væri komin á steypirinn og barnarúmið væri ekki tilbúið…). Svo ég prófaði að setja hreiður hjá þeim. Í fyrstu veittu þau því enga athyggli en svo var ég að fylgjast náið með þeim í gærkvöldi og þau virtust vera mikið að lagfæra hreiðrið, fyrst var hann að tæta hálmana svo kom hún og mátaði, tæti svo nokkur strá og svo fór hún og gaf frá sér skrítin hljóð og þá fór hann aftur að taka til í því. Svona gekk þetta til skiptist allt kvöldið, svo ég er nokkuð spennt að sjá hvort þau séu að fara að koma með egg handa mér :)
- www.dobermann.name -