Í gær var tekin fyrsta skóflustunga af nýrri Frjálsíþrótta- og sýningarhöll við Laugardalshöllina. Það voru Borgarstjórinn í Reykjavík, Þórólfur Árnason og Vilhjálmur Einarsson sem tóku fyrstu stunguna eða réttara sagt stungurnar.
Fram kom í máli Sigfúsar Jónssonar formanns eignarhaldsfélags um bygginguna að stefnt væri að opnun hallarinnar í janúar 2005, en í höllinni verða fjórar 200m hringbrautir á lyftubúnaði og verður hægt að hækka og lækka beygjur með lítilli fyrirhöfn, sem eykur mikið notagildi hallarinnar, auk fullkomnar frjálsíþróttaðstöðu fyrir allar innanhússgreinar, auk aðstöðu fyrir kringlu- og spjótkastæfingar.
Í Bláa sal Laugardalshallarinnar verður gerð lyftingaraðstaða.
Þá kom fram í máli Þórólfs Þórlindssonar varaformanns FRÍ að stefnt væri að því að halda Norðurlandameistaramót í Höllinni um leið og hún yrði tilbúinn.
Nú í morgunsárið má heyra óminn frá stórvirkum vinnuvélum við austurenda Laugardalshallarinnar, svo það fer ekki á milli mála að þessi draumur frjálsíþróttafólks er að verða að veruleika.