Enginn efast um að hæfileg líkamsþjálfun stuðlar að bættri heilsu og að líkindum einnig auknum beinmassa. Í sumum keppnisíþróttum fara æfingar út í slíkar öfgar að þær eru sannanlega skaðlegar heilsunni og á síðustu árum hafa sjónir manna beinst að vaxandi íþróttaiðkun ungra kvenna og áhrifum hennar á heilsufar. Á ólympíuleikum í Grikklandi til forna fengu konur ekki að vera áhorfendur hvað þá þátttakendur. Fyrsta þátttaka kvenna sem keppendur á ólympíuleikum var í París árið 1900 en þá kepptu 11 konur í tennis og golfi. Þátttaka kvenna í keppnisíþróttum fór vaxandi eftir þetta en lengi vel var sú þróun mjög hæg. Ólympíuleikar endurspegla þessa þróun að vissu marki og það segir sína sögu að í München 1972 voru konur aðeins 15% keppenda en í Atlanta 1996 var talan komin í 30%. Rannsóknir á heilsufari íþróttakvenna á tíunda áratug aldarinnar hafa m.a. beinst að því sem kallað hefur verið sjúkdómsþrenna íþróttakonunnar (the female athlete triad) en hún samanstendur af tíðateppu, vannæringu og beinþynningu.
Árið 1978 birtust niðurstöður fyrstu rannsóknarinnar þar sem í ljós kom há tíðni tíðatruflana hjá keppnisíþróttakonum. Síðan hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir sem staðfesta þetta og hugtakið íþróttatíðateppa sá dagsins ljós. Þetta hugtak felur í sér tvenns konar fyrirbæri, annars vegar það þegar stúlkur byrja ekki að hafa tíðir á eðlilegum tíma (tíðabyrjun seinkar verulega) og hins vegar þegar tíðir hætta í þrjá mánuði eða lengur. Fljótlega kom í ljós að þetta var mjög mismunandi eftir íþróttagreinum. Ástandið virðist vera verst í greinum sem krefjast mikils úthalds eins og hlaupum, ballett og fimleikum en í þessum greinum finna menn tíðateppu hjá allt að 60-70% kvennanna. Það er sameiginlegt þessum íþróttum að lítil líkamsþyngd er talin vænleg til árangurs. Konur sem stunda slíkar íþróttir nærast oft allt of lítið og í sumum tilfellum er talað um íþróttalystarstol (anorexia athletica). Það er einnig vel þekkt að lystarstoli og lotugræðgi fylgi tíðateppa. Þessar íþróttakonur nærast sumar mest á grænmetisfæði og komið hefur í ljós að slíkt fæði stuðlar að tíðateppu.
Menn skilja nú orðið nokkurn veginn það sem gerist. Við langvarandi andlega og líkamlega streitu auk lélegs næringarástands verður truflun á starfsemi undirstúku heilans og heiladinguls, sem leiðir m.a. til minnkaðrar framleiðslu kynhormóna í eggjastokkum og aukinnar framleiðslu barkstera í nýrnahettum. Beinar afleiðingar þessara hormónatruflana eru tíðateppa og beinþynning.
Aldur og þroski skipta miklu máli fyrir áhrif íþrótta á kynfæri og bein. Stúlkur sem byrja ungar að æfa mjög stíft eiga á hættu að kynþroskanum seinki, vöxtur verði hægari og endanleg líkamshæð minni. Á þessum aldri (12-18 ára) nær beinmassinn oftast hámarki og truflun á því eykur hættu á beinþynningu og beinbrotum. Rannsóknir hafa sýnt að stúlkum sem byrja ungar að æfa stíft, t.d. fótbolta eða ballet, er hættara við beinbrotum og skemmdum á sinum og vöðvum en þeim sem byrja að æfa eftir tvítugt. Áhrifin á beinin virðast að hluta til vera varanleg og lagast því ekki þó að tíðir og önnur líkamsstarfsemi komist síðar í eðlilegt horf. Tíðateppu fylgir nær óhjákvæmilega ófrjósemi. Íþróttakonum getur fundist þægilegt að sleppa við mánaðarlegar blæðingar en sumar hafa áhyggjur af því að geta ekki orðið barnshafandi. Þetta er ekki stórt áhyggjuefni vegna þess að eingöngu er um að ræða truflun á starfsemi kynfæranna. Ef dregið er úr æfingum og næringarástand bætt má gera ráð fyrir því að tíðir byrji og konan verði aftur frjó. Nokkur umræða er í gangi um hormónagjöf til að hindra þessar truflanir á líkamsstarfseminni hjá íþróttakonum. Ekki er vitað hvort slík hormónagjöf mundi hindra beinþynningu og mörgum finnst að með slíkri lyfjameðferð væri verið að misþyrma líkamanum enn meira.
Tíðateppa hjá íþróttakonum er í sjálfu sér ekki hættuleg en hana ber að taka sem merki um hormónaójafnvægi sem getur haft slæmar afleiðingar.